Stjórn Birtings útgáfufélags, sem gefur út tímaritin Gestgjafann, Hús og híbýli, Vikuna og vikulega fríblaðið Mannlíf, breytti í júlí 118 milljóna króna kröfu frá eiganda sínum í skuld. Á móti var 100 milljóna króna ójöfnuðu tapi félagsins ráðstafað til lækkunar á hlutafé.
Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá lyfjafyrirtækinu Alvogen, er stjórnarformaður og eini hluthafi útgáfufélagsins í gegnum Fjárfestingafélagið Dalurinn ehf. Framlag hans til hækkunar hlutafjár felst í því að 118 milljóna króna kröfu hans á hendur Birtingi er breytt í hlutafé. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það er gert, en í lok árs 2017 breytti Dalurinn 190 milljóna hluthafaláni í hlutafé.
Í apríl í fyrra seldu Róbert Wessmann, forstjóri Alvogen, Árni Harðarson aðstoðarforstjóri og Jóhann G. Jóhannsson, sem einnig starfar hjá lyfjafyrirtækinu, hluti sína til Halldórs. Samstarfsmennirnir keyptu Birting sumarið 2017 eftir að fyrirhuguð kaup Björns Inga Hrafnssonar og fjölmiðlasamsteypunnar Pressunnar á útgáfufélaginu urðu að engu.
Birtingur hafði áður sett tugmilljóna króna hlutafé inn í Pressuna vorið 2017 en miklar deilur komu upp í kjölfarið þegar í ljós kom að helstu eignir félagsins höfðu áður verið seldar félaginu Dalsdal ehf. í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, nú eiganda DV. Standa málaferli vegna þessa enn yfir í tengslum við slitameðferð á Pressunni.
Athugasemdir