Að koma heim úr sumarfríi skapar gullið tækifæri fyrir nýtt upphaf. Þú kemur núllstillt úr æðislegu fríi þar sem þú leyfðir þínum innri syndasel að busla duglega í hótelsundlaug og sökktir þér í áhyggjuleysi og framandi mat. Allt í einu er svo skýrt fyrir þér hvað þú þarft að gera til að lifa mannsæmandi hversdagslífi, laus undan kvíða og streitu.
Þú ferð í bókabúð í París klukkutíma áður en þú flýgur heim og kaupir þér haug af bókum sem þú ætlar að lesa í nýja lífinu þínu í staðinn fyrir draslgreinar sem Facebook velur fyrir þig. Kveður síðasta krossantið með viðhöfn. Bless, elsku súkkulaðismjördeigsklumpur, við sjáumst kannski í næsta lífi.
Þú gerir ítarlega verkefnaáætlun í Notes fyrir næstu daga og vikur í flugvélinni til að róa hugann sem er í áfalli yfir því því að hinu ljúfa lífi sé lokið í bili. Kannski ferðu á Spotify um kvöldið og finnur þar dávald sem hvíslar þig í svefn með styrkjandi fullyrðingum í staðinn fyrir að liggja yfir þáttum fram á rauða nótt.
Þú vaknar daginn eftir og auglýsir eftir mannbætandi hlaðvörpum á Twitter. Kannski hættirðu að taka strætó í vinnuna og byrjar að ganga í staðinn og hlusta á téð hlaðvörp á meðan. Þú verður sannfærð um að þú sért manneskja sem er fær um að gera jákvæðar breytingar á sjálfri sér. Ó, hvað nýja lífið er dásamlega ljúft og ljóðrænt.
Hvernig gat ég lifað lífinu mínu eins og mannlegur sorphaugur þegar þetta er í boði? Skyndilega kemur tilkynning upp í símann þinn sem segir að það sé komin ný sería af uppáhaldsþættinum þínum á Netflix. Þú ætlar bara að smakka smá en áður en þú veist af ertu búin að háma í þig ellefu þætti á innan við sólarhring og nýja lífið hefur setið á hakanum. Skaðinn er skeður og þú pantar pitsu í Dominos-appinu, sefur til þrjú daginn eftir og vaknar löðrandi í skömm. Allt er ónýtt. Sem er kannski ágætt því það er helvítis álag á bestu útgáfunni af sjálfri þér.
Athugasemdir