Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir að Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, sé „í bullinu“ fyrst hann telji stjórnarskrána heimila að forseti Íslands vísi þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ólafur var kosinn á þing fyrir Flokk fólksins, en færði sig yfir í Miðflokkinn eftir Klaustursmálið svokallaða. Á fimmtudag birti hann grein í Morgunblaðinu þar sem hann sagðist telja að forseti hlyti að íhuga að vísa þingsályktun um þriðja orkupakkanum í þjóðaratkvæðagreiðslu, verði hún samþykkt á Alþingi.
Inga tjáði sig um hugmyndir Ólafs í hópnum Pírataspjallið á Facebook. Hún hefur sjálf talað fyrir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um orkupakkann og lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis. „26. gr. á við um frumvörp en ekkert annað,“ skrifar hún. „Þannig að hann er í bullinu ef við tökum mark á stjórnarskránni sem er jú æðst allra réttarheimilda.“
Hún segir afstöðu sína vera í takti við stjórnarskrána. „Hér er akkúrat ekkert sem segir að forseti hafi heimild til að stíga inn í þingsályktun enda er það form allt annað. Til að mynda er þar einungis um að ræða tvær umræður í þinginu á móti þremur þegar um frumvarp er að ræða. Mín túlkun er sú, að ágætur Ólafur er ekki með þetta, því miður,“ skrifar Inga.
Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og talsmaður Orkunnar okkar, samtaka sem berjast gegn innleiðingu þriðja orkupakkans, tók undir hugmyndir Ólafs í umræðunum. „Forsetinn þiggur vald sitt frá þjóðinni en ekki ríkisstjórninni og gæti því neitað að skrifa undir ef hann telur að eitthvað sé athugavert við þriðja orkupakkann eða ef hann telur að kjósendur séu almennt á móti honum,“ skrifar Frosti.
Inga sagði þetta alrangt hjá Frosta og bendlaði hann við Miðflokkinn. „Stjórnarskráin er æðst allra réttarheimilda og hún mun svo sannarlega virka samkvæmt orðanna hljóðan alveg sama hvað fólki finnst um það,“ skrifar hún.
Þá svaraði Frosti því til að hann væri ekki í Miðflokknum. „Nú? Það kemur á óvart. Get ekki betur séð en Orkan okkar sé eingöngu byggð utan um Miðflokkinn og akkúrat ekkert annað?“ skrifaði þá Inga.
„Frosti Sigurjónsson, þú ert eins og vinir þínir. Gefur skít í greinarnar mínar gegn innleiðingu orkupakkans,“ bætti hún við. „Aumt að þurfa að horfast í augu við það að þú hafir verið sofandi með Þyrnirós Miðflokksins á meðan ég var glaðvakandi að leita að stuðningi gegn orkupakka 3. Hallærisleg pólitík... GUBB.“
Athugasemdir