Umsjónarmenn námskeiðs í áhættuleik hjá Blóðøx Stunts, systkinin Jón Viðar Arnþórsson og Ingibjörg Helga Arnþórsdóttir, birtu í dag myndband á Facebook þar sem gróft heimilisofbeldi er sviðsett og gantast með að kona „borði nú ekki eins mikið með brotnar tennur“.
Í myndbandinu mátti sjá Jón ganga í skrokk á Ingibjörgu og refsa henni fyrir að hafa bakað köku. „Ekki baka köku,“ hrópar Jón Viðar eftir að hafa slegið höfði hennar í eldavél og gólf.
Myndbandið var fjarlægt af Facebook eftir að Stundin hafði samband við Jón Viðar og ræddi við hann um málið. Stundin vistaði hins vegar myndbandið sem má sjá hér að ofan.
„Það er ekki verið að gera grín að heimilisofbeldi. Það er verið að auglýsa stönt-námskeið þar sem við gerum svona senur í kvikmyndum á Íslandi,“ segir Jón Viðar, bardagaþjálfari og stofnandi ISR á Íslandi.
Aðspurður hvort þeim finnist fyndið að kona „borði ekki eins mikið með brotnar tennur“ svarar Jón Viðar: „Þetta er bara einkahúmor hjá okkur og þeir sem eru að fara á þetta námskeið og þeir sem eru að æfa hjá okkur hafa hlegið ansi mikið af þessu. Við erum bara að grínast. Eins og þú augljóslega sérð þá er þetta ekkert nema grín.“
„Ekki man ég eftir einhverju svona heimilisofbeldi, þar sem andlitinu hennar
er skellt í eldavélina og svo gólfið“
Jón Viðar segir að námskeiðin snúist um að læra að lemja fólk í plati og myndbandið sé gott dæmi um þetta. Þegar talið berst að heimilisofbeldi og þolendum þess segist Jón Viðar sjálfur berjast í þágu þolenda heimilisofbeldis með því að þjálfa konur til að geta staðið í lappirnar og varið sig. „Ekki vera að reyna að mála mig upp sem einhvern vondan kall af því að þetta er ekkert nema leikrit. Þú hefur væntanlega séð Tomma og Jenna og séð bíómyndir sem eru bannaðar innan 16?“
En þú gerir þér grein fyrir því að þetta er raunveruleiki margra íslenskra kvenna?
„Geri ég mér grein fyrir því? Ég starfa við þetta á hverjum einasta degi að þjálfa stelpur sem hafa lent í ofbeldi. Þú getur heyrt í þeim og spurt hvernig þeim líður. Þær hlógu bara af þessu vídjói.“
Þér finnst vídjóið ekki líkjast heimilisofbeldi?
„Þetta er svo langt frá því að líkjast því. Þetta er svo ógeðslega ýkt. Ég vann í lögreglunni í mörg ár. Ekki man ég eftir einhverju svona heimilisofbeldi, þar sem andlitinu hennar er skellt í eldavélina og svo gólfið. Ég hef margoft komið að heimilisofbeldi og þetta er svo ýkt að það hálfa væri nóg.“
Skömmu eftir samtalið birtist yfirlýsing á Facebook-síðu námskeiðsins. „Við ákváðum að taka leikna myndbandið hjá stunt leikurunum og sytkinunum út þar sem það fór fyrir brjóstið á nokkrum. Þótt lang flestum hafi fundist þetta flott og vel leikið atriði.“
Athugasemdir