Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, mótmælir nýju deiliskipulagi í Stekkjarbakka við Elliðaárdal og vill láta friða dalinn. Árið 2004 barðist hann fyrir því sem stjórnarmaður Íþróttafélagsins Fylkis að afgirt æfingasvæði yrði reist fyrir félagið í dalnum.
Á lóðinni er fyrirhugað að byggja þjónustuíbúðir, hús fyrir Garðyrkjufélag Íslands og loks gróðurhvelfingu. Í hvelfingunni, sem ber nafnið Aldin Biodome, er áformað að rækta Miðjarðarhafs- og miðbaugsgróður.
Deiliskipulag Stekkjarbakka var samþykkt í borgarráði fimmtudaginn 4. júlí með andstöðu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks. Þá hafa Hollvinasamtök Elliðaárdals einnig gagnrýnt framkvæmdina og vilja að henni sé hnekkt. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur sagt uppbygginguna skynsamlega og bent á að svæðið sé fyrir utan afmörkun Elliðaárdals í aðalskipulagi og sé mikið raskað.
Í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sagðist Björn vilja kæra deiliskipulagið. „Þetta verður eins og kjarnorkuver í miðjum Elliðaárdalnum, umhverfisspjöllin verða svo mikil, þetta mun gnæfa yfir með mikilli ljósmengun og þetta nær yfir vatnasvið Elliðaánna og mér finnst það alveg forkastanlegt,“ sagði Björn í viðtalinu.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, var einnig til viðtals í þættinum. „Mér finnst þessi samanburður við kjarnorkuver algjörlega galinn, þetta er ekki umhverfisslys, það eru svo skýrar kvaðir í þessu deiliskipulagi um allan frágang,“ sagði Sigurborg. „Það mun vera mun minni ljósmengun af þessu en af þeim ljósastaurum sem eru þarna nú þegar.“
Var áður fylgjandi mannvirkjum í Elliðaárdal
Gísli Marteinn Baldursson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, gerði stefnubreytingu Björns að umfjöllunarefni á Twitter á sunnudag. „Pólitík er skrýtin,“ skrifaði Gísli Marteinn. „Þegar ég var í borgarmálum tókumst við Björn á um verndun Elliðaárdals. Þá vildi hann fá æfingasvæði fyrir Fylki (þar sem hann var í stjórn) oní miðjan dalinn, sem ég vildi ekki. Nú vill hann friða dalinn og alls engin mannvirki!“
Í frétt í Morgunblaðinu frá janúar 2004 var rætt við Björn um áhuga Fylkis á að stækka athafnasvæði sitt í Elliðaárdal og við Rauðhóla. „Við höfum einnig sett fram hugmyndir að nýjum mannvirkjum í Blásteinshólma í Elliðaárdal. Það tengist meira svæðinu við Fylkisveg og yrði hrein viðbót við það svæði,“ var haft eftir Birni.
Athugasemdir