Lögregla og ríkissaksóknari töldu ekki tilefni til að rannsaka hvort nauðgun hefði átt sér stað þegar maður þröngvaði lim sínum í endaþarm 17 ára stúlku meðan hún svaf. Maðurinn viðurkenndi verknaðinn þegar hann var yfirheyrður af lögreglu vegna annars máls og tók fram að hann hefði vitað að stúlkan, þá kærasta hans, væri mótfallin endaþarmsmökum.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hóf ekki rannsókn, meint brot var ekki skráð í málaskrá og stúlkunni ekki skipaður réttargæslumaður. Kvaðst maðurinn sjálfur hafa verið sofandi þegar hann framkvæmdi verknaðinn og var því ekki talið að hann hefði verið að játa ásetningsbrot.
Lögreglan fullyrðir í bréfi að háttsemin sem maðurinn lýsti geti ekki talist nauðgun eða kynferðisbrot. Hefur nú ríkissaksóknari komist að sömu niðurstöðu en embættið telur að ekki sé tilefni til að ætla annað en að fyllilega lögmæt sjónarmið hafi búið að baki ákvörðun lögreglu um að rannsaka ekki málið. Samkvæmt niðurstöðu embættisins frá 11. júní 2019 verður „ekki […] séð að sakborningurinn hafi með framangreindum framburði sínum verið að viðurkenna nauðgun eða lýsa ásetningsverki“.
Um er að ræða föðurinn í svokölluðu Hafnarfjarðarmáli sem komst í hámæli í fyrra eftir að Stundin fjallaði um og birti samtímagögn sem sýndu hvernig Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, sem nú er fulltrúi Íslands og Norðurlandanna í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, hafði beitt sér fyrir því að dætur mannsins yrðu látnar umgangast hann og föðurfjölskylduna, þrátt fyrir grunsemdir barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um að faðirinn hefði brotið gegn þeim.
Kærði atvikið þegar upplýsingarnar komu fram
Frásögnin af verknaðinum gagnvart móðurinni kom fram í skýrslutöku þann 5. febrúar 2015 þegar lögregla rannsakaði meint brot gegn stúlkunum vegna tilkynningar frá barnaverndarnefnd.
Í yfirheyrslunni ræddi maðurinn um sambandsslit sín og móðurinnar og rakti þau til atviks þar sem hún hefði talið hann brjóta gegn sér. Viðurkenndi maðurinn að hafa lagst ofan á móðurina og haft „endaþarmsmök“ við hana meðan hún svaf og tók fram að þetta væri „eitthvað sem ég veit að hún hefur ekki áhuga á“.
Þetta var skráð með skýrum hætti í yfirheyrsluskýrslu. Lögreglan opnaði hins vegar ekki rannsókn á málinu og tilkynnti konunni ekki um framburð mannsins. Þannig fékk hún ekki vitneskju um „játninguna“ fyrr en löngu síðar, í fyrra þegar henni voru kynnt lögreglugögn um mál dætra sinna og rannsóknina á meintum kynferðisbrotum gegn þeim.
Konan kærði þá meint kynferðisbrot til lögreglu en samhliða voru starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðnu kærðir fyrir að hafa haldið upplýsingunum um meinta nauðgun leyndum og látið undir höfuð leggjast að rannsaka málið. Héraðssaksóknari framsendi ríkissaksóknara þann hluta kærunnar er varðaði hið meinta kynferðisbrot gegn konunni og fól ríkissaksóknari lögreglunni á Suðurlandi þann 12. nóvember 2018 að fara með rannsókn þess hluta kæruefnisins. Þar er málið enn til meðferðar.
Verknaðinum lýst í lokaskýrslu lögreglu
Í kærunni er rakið að maðurinn hafi „viðurkennt í yfirheyrslu hjá lögreglu 5. febrúar 2015 að hafa nauðgað“ henni. Frásögnin af atburðinum sé afdráttarlaus og ekki ástæða til að draga hana í efa. „Er kærð sú háttsemi starfsmanna embættisins að skrá ekki meint brot í málaskrá lögreglu, hefja ekki rannsókn á meintu broti og tilnefna umbjóðanda mínum ekki réttargæslumann í tilefni af þessum upplýsingum“, segir í kærunni.
„Játaði [maðurinn] að hafa haft endaþarmsmök við umbjóðanda minn á meðan hún var sofandi en að sögn [hans] var það „eitthvað sem ég veit að hún hefur ekki áhuga á“ eins og segir í skýrslunni.“ […] Það eru mikil ólíkindi fyrir því að játning [mannsins] á nauðgun, sem fram kom í yfirheyrslu 15. febrúar 2015 hafi farið fram hjá tveimur reyndum rannsóknarlögreglumönnum enda var hann tvíspurður með nokkru
Athugasemdir