Kynbundið ofbeldi er enn tabú. Þrátt fyrir myllumerkjabyltingar, þar sem þúsundir kvenna með alls konar bakgrunn hafa opnað sig um ofbeldi og áreitni, hrekkur samfélagið enn í baklás og vörn þegar umræður um þessa kerfisbundnu aðför að öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á sér stað.
Þolendur sem greina frá ofbeldi á hendur sér leggja mannorðið að veði. Dregið er úr trúverðugleika þeirra og lítið gert úr frásögnum þeirra og upplifunum. Séu gerendur nafngreindir verða viðurlögin enn harðari. Þær fáu konur sem treysta sér til að reiða sig á réttarkerfið uppskera sjaldnast árangur erfiðis síns. Í langflestum tilfellum eru málin látin niður falla þar sem líkur á sakfellingu þykja litlar sem engar. Þeir fáu dómar sem falla eru vægir og oft skilorðsbundnir.
Þrátt fyrir þetta verða raddir þolenda sífellt háværari og krafan um réttlæti sömuleiðis. Á sama tíma verða nýjar og formlegri leiðir til þöggunar algengari. Konur eru kærðar fyrir rangar sakargiftir í kjölfar niðurfellingar á kærum þeirra og konur sem fjalla um kynbundið ofbeldi eru kærðar fyrir meiðyrði. Nýfallnir dómar yfir Oddnýju Arnarsdóttur og Hildi Lilliendahl Viggósdóttur eru til marks um að þessi leið geti reynst andstæðingum kvenfrelsis vænleg til árangurs. Þannig er í raun verið að þagga niður umræðuna um kynbundið ofbeldi og kröfuna um öruggt samfélag fyrir allt fólk.
Þessi þróun bendir til þess að til viðbótar við hefðbundna ófrægingu á hugrökkum konum sé réttarkerfinu beinlínis beitt gegn þeim. Að í stað þess að réttarkerfið sinni því hlutverki sem því er ætlað, að standa vörð um almannahagsmuni og tryggja að fólk njóti friðar og friðhelgi einkalífs, sé það beinlínis notað til að þagga niður í konum sem krefjast þess eins að þetta sama kerfi virki fyrir okkur öll.
Konur og jaðarsett fólk verður að hafa skýran rétt til að tjá sig um reynslu sína og upplifanir og rétturinn til að standa með þolendum verður að vera til staðar. Það er löngu tímabært að kerfi sem búið var til af forréttindakörlum fyrir forréttindakarla molni undan andstæðingum kvenfrelsis. Þeir verða að hlusta, taka gagnrýni og útvíkka sjóndeildarhringinn sinn í stað þess að beita valdi sínu til að þagga niður mikilvægar gagnrýnisraddir.
Til að tryggja málfrelsi kvenna og jaðarsetts fólks höfum við sett af stað söfnun á Karolinafund í málfrelsissjóð. Sjóðnum er ætlað að draga úr ótta og tryggja að fjárhagsáhyggjur bætist ekki við það andlega og tilfinningalega álag sem fylgir því að tala um kynbundið ofbeldi. Markmiðið er að sjóðurinn muni geta staðið undir málsvarnarlaunum og mögulegum bótum sem konur kunna að verða dæmdar til að greiða vegna umræðna um kynbundið ofbeldi og nauðgunarmenningu.
Athugasemdir