The New York Times birti nýlega myndbandsupptökur með viðtölum við alla frambjóðendur í forvaldi Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fram fara á næsta ári. Allir frambjóðendurnir sem þáðu boðið svöruðu nákvæmlega sömu spurningum og ein þeirra var: „Hvenær fórstu síðast hjá þér?“
Svörin voru ólík, en öll í vægari kantinum. Sum sögðu að þau fari hjá sér þegar börnin þeirra stríði sér. Önnur sögðust skammast sín fyrir að muna ekki eftir neinu atviki þar sem þau skömmuðust sín.
„Ég rakst í vatnsflösku,“ sagði Beto O'Rourke. „Ég fór í cargo-buxum í ræktina,“ sagði Bill de Blasio. „Ég fer hjá mér alla daga þegar ég afkasta ekki neinu,“ sagði Bernie Sanders.
Kannski eiga stjórnmálamenn erfiðara með það en aðrir að viðurkenna eitthvað vandræðalegt, jafnvel þegar spurningin snýst einmitt um það. Að sýna að þeir séu mannlegir. Hafi ekki náð settu markmiði. Geri mistök.
Spurningin hefði þó mátt vera djarfari. Mig langaði að sjá orðið „failure“. Hvenær misheppnaðist eitthvað mikilvægt hjá þér? Hvenær gafstu þig alla/n fram en hafðir ekki erindi sem erfiði? Hvenær hélstu að þú gætir gert eitthvað, reyndist vera fullkomlega vanhæf/ur til verksins og sast eftir með sárt ennið?
Það er öllum hollt að viðurkenna það þegar þeir missa marks. Ekki bara þegar það er handvömm, afglöp eða hrein og bein óheppni, heldur einnig þegar þau voru einfaldlega á kolvitlausri vegferð. Reynslan er besti kennarinn og mistökin eru til að læra af þeim.
Á tímum samfélagsmiðla, þar sem allir sýna bestu ímyndina af sjálfum sér, er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að muna að enginn er fullkominn. Það ríða ekki allir feitum hesti frá öllum viðskiptum. Það vinna ekki allir björninn. Það flá ekki allir feitan kött. Og ef þú gerir mistök – eins og til dæmis að nota of mörg svipuð orðtök í sama pistlinum – viðurkenndu það!
Athugasemdir