Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, greinir frá því í Reykjavíkurbréfi í dag að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi átt í samskiptum við sig um val á Seðlabankastjóra árið 2014.
„Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði bæði gefið til kynna og sagt ýmsum frá að hann ætlaði sér ekki að endurskipa Má Guðmundsson þegar að því kom árið 2014,“ skrifar Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins til 14 ára.
„Þegar að þessu dró var ráðherrann staddur fyrir norðan, sennilega á Siglufirði, og hringdi í menn og upplýsti þá, og þar á meðal ritstjóra Morgunblaðsins, að vegna óvænts flækjustigs sem upp hefði komið (sem ekki verður farið út í hér) hefði hann ekki náð að gera breytingarnar sem hann hefði margboðað. Hann myndi því skipa Má og skipunarbréfið gæfi til kynna að það yrði til fimm ára.“
Fram kemur að hins vegar hafi verið „sameiginlegur skilningur á því að skipunin stæði í hæsta lagi til eins árs“ en ekki hafi allir verið „mjög trúaðir á þennan málatilbúnað“.
Davíð vitnar í „minnispunkta“ og segir að Bjarni Benediktsson hafi efnislega sagt eitthvað á þessa leið: „Þessu mega menn treysta og Már gerir sér grein fyrir þessu og mun birta yfirlýsingu sem í raun staðfestir það sem ég er að segja.“
Már Guðmundsson var endurskipaður til fimm ára í ágúst 2014. Þegar tilkynnt var um skipunina gaf Már Guðmundsson út yfirlýsingu þar sem hann sagði meðal annars: „Ég tel í þessu sambandi rétt að upplýsa að ég hef í nokkur ár haft hug á að skoða möguleikann á að hverfa á ný til starfa erlendis áður en aldursmörk hamla um of. Ég taldi ekki heppilegt að gera það nú í ljósi ástandsins og verkefnastöðunnar í Seðlabankanum auk fjölskylduaðstæðna. Þetta mun breytast á næstu misserum. Það er því óvíst að ég myndi sækjast eftir endurráðningu komi til slíks ferlis vegna breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands á næstu misserum.“
Davíð Oddsson gegndi embætti aðalbankastjóra Seðlabankans frá 2005 til 2009. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu árið 2010 að Davíð Oddsson og bankastjórn Seðlabankans hefðu sýnt af sér vanrækslu í aðdraganda hrunsins. Nú, tæpum tíu árum síðar, liggur fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna umdeildra lánveitinga Seðlabankans gegn ótryggum veðum á þeim tíma nemur um 235 milljörðum króna. Frá því að Davíð vék úr embætti seðlabankastjóra hefur hann farið hörðum orðum um eftirmenn sína, bæði um Norðmanninn Svein Harald Øygard og Má Guðmundsson.
Bjarni Benediktsson upplýsti um það þegar hann var nýorðinn fjármálaráðherra árið 2014 að hann hitti stundum Davíð Oddsson á Hótel Holti. Sagðist Bjarni gjarnan hlusta á sjónarmið fyrrverandi forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar væri ekkert til í því að „Davíð eða einhverjir aðrir séu að stjórna á bak við tjöldin“.
Samkvæmt frásögn Davíðs Oddssonar í Reykjavíkurbréfi í dag fékk Davíð upplýsingar um það á undan öðrum að Bjarni hygðist endurnýja skipun Más Guðmundssonar árið 2014. Þá virðist sem Bjarni hafi áður verið búinn að upplýsa Davíð um að til stæði að skipa annan umsækjanda en Má.
Athugasemdir