Eitt mesta afrek síðari tíma stjórnmála á Íslandi er að stjórnmálaflokkur sem afhjúpaði viðlíka siðleysi og Miðflokkurinn gerði í vetur, sé aftur kominn í kjörfylgi og stýri stjórnmálaumræðunni í samfélaginu.
Frekjukrakkinn
Ein af lykilklemmum samtímans er að við getum ekki hunsað sláandi hegðun stjórnmálamanna, en um leið og við veitum þeim athygli leggjum við sérstaklega drög að framgangi þeirra.
Ástæðan er hugræn tilhneiging fólks til að treysta þeim sem það hefur heyrt um, að velja það sem það þekkir.
Þegar umræðan snýst stöðugt um sláandi yfirlýsingar og ásakanir Vigdísar Hauksdóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eða Donalds Trump, eru þessir stjórnmálamenn í brennidepli og umræða um málefni hverfist um þau.
Vigdís Hauksdóttir , borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur meðal annars ásakað starfsmenn Reykjavíkurborgar og andstæðinga sína um kosningasvindl og þannig viljað grafa undan lögmæti lýðræðislegra kosninga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur árum saman fært fram margvíslegar samsæriskenningar sem hverfast um hann sjálfan, allt frá ósönnuðum njósnum vogunarsjóða yfir í ótilgreindan „sdg-hóp“ á Ríkisútvarpinu sem beitir sér gegn honum. Þá hefur hann hótað að draga fjölmiðla fyrir dóm vegna umfjöllunar um brot hans á siðareglum.
Miðdepill athyglinnar
Þessi tilhneiging, að láta allt hverfast um sjálfan sig og hegða sér illa til þess að fá athygli, á sér hliðstæðu í uppeldisfræðum. „Frekir“ krakkar læra að ástunda þessa hegðun til að fá sínu framgengt. Óæskileg hegðun getur bæði orðið einkenni og tæki. Barn sem fær ekki athygli nema það brjóti af sér er líklegt til þess að halda áfram skaðlegri hegðun. Þannig er ekki bara spurning um eðlislæga tilhneigingu viðkomandi, heldur líka æskileg viðbrögð og áhrif okkar.
Þegar allar upplýsingar eru skemmtun og þeim er dreift eftir drifkrafti skemmtanagildis, komast þeir stjórnmálamenn helst á dagskrá sem ganga lengst. Þeir sem eru sjálfhverfir, segja sögur og draga upp samsæri, dreifa ótta, ýkja eigið mikilvægi og ásaka aðra, fá þá athygli sem þeir þurfa til að haldast í sviðsljósinu.
Miðflokkurinn er sá flokkur á Íslandi ásamt Sjálfstæðisflokknum sem fær langmesta athygli í fréttum. Frá áramótum hefur flokkurinn verið nefndur rétt tæplega 600 sinnum í fréttum, en Sjálfstæðisflokkurinn rétt rúmlega 600 sinnum. Þetta er fjórfalt meira en Framsóknarflokkurinn, sem þó er í ríkisstjórn, og tæplega tvöfalt meira en Vinstri græn, Samfylkingin eða Píratar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur þannig verið nefndur töluvert oftar en Sigurður Ingi Jóhannsson, eftirmaður hans í formannsstóli í Framsóknarflokknum, sem þó er ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála.
Þrír pakkar Miðflokksins
Það sem Sigmundur og samflokksmenn hans hafa fyrst og fremst unnið til afreka til að ávinna sér alla athyglina er að draga tveggja barna móður með örorku fyrir dóm vegna þess að hún tók upp umræður þeirra á bar, þar sem þeir, sumir yfirlýstir jafnréttissinnar, kölluðu nafngreindar konur tíkur og kuntur, sögðust ætla að hjóla í eina þeirra, og játuðu að hafa misnotað aðstöðu sína í ráðherrastóli til að reyna að verða sér úti um sendiherrastöðu, þar á meðal ráðið „fávita“ í stöðu sendiherra til að villa um fyrir kjósendum.
Þannig tryggði Miðflokkurinn að hann var mánuðum saman í fréttum. Á sama tíma ýttu flokksmenn undir athyglina með því að ásaka almenna borgarann Báru Halldórsdóttur um að hafa tekið þátt í samsæri, jafnvel þótt hegðun þeirra væri óumdeild, að öðru leyti en að selahljóð í umræðu um fatlaða konu var að sögn Sigmundar stóll og síðar reiðhjól.
Þannig voru það afhjúpandi hegðun Miðflokksmanna á barnum, viðbrögðin við siðleysinu og svo þriðja málið, málþóf tengt ótta við erlend áhrif á orkuauðlindina, sem tryggðu Miðflokknum miðlæga stöðu í íslenskri samfélagsumræðu.
Óttapakkinn
Þriðji orkupakkinn, eins og önnur samhangandi Evrópusamvinna, getur skipt Íslendinga máli með kostum og göllum. Óttinn er að þriðja orkupakkanum geti fylgt að sæstrengur verði lagður til Bretlands, sem er þó að ganga úr Evrópusambandinu, og að orkan verði á endanum framseld úr landi án aðkomu, arðs eða yfirráða þjóðarinnar.
Ef framtíðarríkisstjórn Íslands ákveður að selja Landsvirkjun, líkt og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til að hluta vorið 2014, mun arður af orkuauðlindinni fara úr höndum þjóðarinnar. Þetta hefur þegar gerst í tilfelli Reykjavík Energy Invest og svo HS Orku, allt frá því að borgarstjórn Reykjavíkur með Björn Inga Hrafnsson, einn helsta stuðningsmann Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í fararbroddi sem samningamann gerði „besta díl Íslandssögunnar“ með því að reyna að afhenda opinbert orkufyrirtæki til auðmanna.
Sérstaklega er áhættan til staðar vegna þess að ný stjórnarskrá með skýru ákvæði um þjóðareign auðlinda hefur ekki verið samþykkt af þingmönnum, meðal annars vegna andstöðu ríkisstjórna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar, þótt þjóðin hafi samþykkt hana í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012.
Stuðningur við kínversk álver
En það þarf ekki sæstreng til að arður af auðlindinni rýrni. Hvernig væri til dæmis ef við fylltum landið af kínverskum álverum, í slíkum aðstæðum? Eins og fyrsta skrefið var tekið að, þegar undirrituð var viljayfirlýsing um kínverskt álver nálægt Skagaströnd 1. júlí 2015, að viðstöddum Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, þar sem hann hélt ræðu og fagnaði verkefninu, samkvæmt viðstöddum.
Tæpum fjórum árum eftir að Sigmundur Davíð stofnaði starfshóp um lagningu sæstrengs til Bretlands, stóð hann að lengsta málþófi í sögu Alþingis þar sem Miðflokkurinn reyndi að knýja fram málstað sinn með því að þvinga þingið.
Málþóf er á sinn hátt ólýðræðisleg aðgerð, en getur átt rétt á sér þegar stjórnvöld stunda gerræði. Tilfellið er hins vegar að einungis Miðflokkurinn stendur að málþófinu.
Þöggun um siðleysi
Eitt af þeim málum sem hefur beðið á Alþingi vegna málþófs Miðflokksins eru umbætur á réttarstöðu uppljóstrara, sem GRECO, Samtök ríkja gegn spillingu, hafa gagnrýnt íslensk stjórnvöld sérstaklega fyrir að hafa vanrækt. Réttarbæturnar koma vissulega til samhliða ytri þrýstingi, en þær eiga að tryggja að fólk geti treyst sér til að segja mikilvægan sannleika án þess að þeim verði refsað fyrir það.
Málarekstri Miðflokksmanna gegn Báru Halldórsdóttur lauk með því að Persónuvernd taldi henni skylt að eyða upptöku sem afhjúpaði siðleysi þeirra. Kröfum þeirra um að Bára greiddi sekt í ríkissjóð og ásökunum á hendur henni um samsæri var hins vegar vísað til föðurhúsanna.
Erfitt er að segja hvort það hefði hjálpað Báru ef íslensk stjórnvöld hefðu sinnt þeirri skyldu sinni í viðgangi lýðræðisríkis að tryggja uppljóstrurum sérstaka vernd í lögunum. Það er líka erfitt að sjá hvort staða hennar hefði styrkst við að ný og lýðræðisleg stjórnarskrá hefði verið tekin upp, sem kveður á um að „vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum“. Sama stjórnarskrá og var niðurstaða ferlis stjórnarskrárgerðar með sama móti og Sigmundur Davíð gerði að forgangsmáli sem formaður Framsóknarflokksins rétt eftir hrun, en snerist svo gegn.
Mál og meðöl Miðflokksmanna eru of lærdómsrík til þess að við ættum að eyða þeim úr minni eða hunsa.
En það er athygli án athugunar sem við þurfum að varast og auka meðvitund um meðvirkni með siðleysi.
Athugasemdir