Ríkisstjórnin ætlar að leggja til við fjárlaganefnd að gerðar verði breytingar á fjármálaáætlun til að koma í veg fyrir að ríkið verði rekið með halla í niðursveiflunni sem nú er að hefjast.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef fjármálaráðuneytisins í kvöld vegna endurskoðaðrar fjármálastefnu sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt fram fyrir árin 2018 til 2022.
Með breyttri fjármálastefnu verður dregið úr áformuðum afgangi á heildarafkomu hins opinbera í ljósi breyttra efnahagsaðstæðna. Þannig er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs dragist umtalsvert saman og afkoman versni.
„Er umfangið af þeirri stærðargráðu að ef ekki væri gripið til ráðstafana væru horfur á því að afkoma hins opinbera færi í halla á komandi árum. Það kynni að leiða til óvissu um að afkomureglan um jákvæða heildarafkomu á fimm ára tímabilinu yrði virt og drægi að óbreyttu úr sjálfbærni opinberra fjármála,“ segir í greinargerð sem fylgir tillögunni um endurskoðaða fjármálastefnu.
„Stjórnvöld munu grípa til mótvægisráðstafana að því marki sem á þarf að halda“
Breytingarnar á fjármálastefnunni og fyrirhugaðar breytingar á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eru sagðar „endurspegla þá afstöðu stjórnvalda að þrátt fyrir að breyttar efnahagsforsendur leiði óhjákvæmilegra til hóflegri afkomumarkmiða á næstu árum (...) þá sé engu að síður óásættanlegt að svo mikil slökun verði gerð á afkomu hins opinbera að hún snúist í halla við núverandi aðstæður. Til að varna því að í starfsemi hins opinbera myndist halli og lánsfjárþörf (...) felur breytt stefna í sér að stjórnvöld munu grípa til mótvægisráðstafana að því marki sem á þarf að halda í því skyni, þrátt fyrir að vikið verði frá fyrri áformum um að skila talsverðum afgangi.“
Þannig er ekki aðeins gert ráð fyrir að tekjur ríkisins verði lægri en áður leit út fyrir og afkoma ríkissjóðs sjálfkrafa minni, heldur að gripið verði til sérstakra aðhaldsaðgerða, annaðhvort með minni útgjöldum eða aukinni tekjuöflun.
Gildandi fjármálastefna gerir ráð fyrir 1,4% afgangi á heildarjöfnuði hins opinbera árið 2018 og að jafnaði 1% afgangi á árunum 2019-2022. Í tillögu að endurskoðaðri stefnu er gert ráð fyrir breyttum afkomuhorfum frá og með árinu 2019 en þó þannig að heildarjöfnuður verði jákvæður á gildistíma stefnunnar, ríkið ekki rekið með halla og fjármálareglum laga um opinber fjármál fylgt.
Athugasemdir