Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hitti Frans páfa í dag á fundi fjármálaráðherra í Vatíkaninu. Vísindaakademía Páfagarðs boðaði til fundarins sem er liður í starfi nýstofnaðs alþjóðlegs vettvangs ráðherranna og ætlað að hvetja til aðgerða í loftslagsmálum í krafti regluverks og ákvarðana á sviði ríkisfjármála og fjármálamarkaða.
„Við ætlum að leggja okkar af mörkum til að mæta loftslagsvandanum,“ sagði Bjarni í ræðu sinni að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins. Sagði hann Ísland hafa verið leiðandi í orkuskiptum, með því að nýta hreinar auðlindir til húshitunar og raforkuframleiðslu.
Ætlunin væri að taka enn frekari skref, með orkuskiptum í samgöngum og uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, enda hefði ríkisstjórnin sett sér markmið um kolefnahlutleysi árið 2040. Jafnframt gæti framlag Íslands falið í sér útflutning á þekkingu á nýtingu fallorku og jarðhita, sem og áframhaldandi rannsóknir og þróun, meðal annars á niðurdælingu koltvísýrings.
Athugasemdir