Þingmenn eiga að syndga í þögn, kóa hver með öðrum. „Honour among thieves“ er sagt um glæpamenn sem virða óskráðar reglur undirheimanna og koma ekki upp um aðra glæpamenn og kannski er sama lögmálið líka lykillinn að virðingu Alþingis.
Það má allavega lesa úr úrskurði siðanefndar þingsins.
Það gengur illa að selja almenningi þessi fræði. Almenningur er svo illgjarn og heimskur. Stundum rata óuppdregnir fulltrúar þessa almennings inn í launhelgarnar við Austurvöll, vaða þar um á sokkaleistunum og varpa rýrð á virðingu Alþingis með alls kyns masi og óábyrgu blaðri um félaga sína.
Siðanefnd Alþingis þarf síðan að greiða úr öllu ruglinu, eins og núna þegar ung alþingiskona varpaði rýrð á störf Alþingis, skaðaði ímynd þess sem aftur gróf undan trausti almennings. Hún sagði rökstuddan grun um fjárdrátt þegar það fór í fréttir að roskinn þingmaður var búinn að aka um eins og brjálæðingur, með alls kyns fólk, meðal annars dagskrárgerðarfólk frá ÍNN, þeytast nokkra hringi í kringum borgina, kjördæmið sitt og landið og senda síðan almenningi reikning upp á 4,6 milljónir fyrir 48 þúsund kílómetra akstur.
Forseta og æðsta ráði Alþingis þótti ekki ástæða til að þessi áráttukenndi og rándýri akstur færi fyrir siðanefndina því eins og öllum ætti að vera ljóst liggur enginn glæpur í því að misnota almannafé, heldur einungis í því að hafa orð á því opinberlega og misnota þannig virðingu þingsins. Mál þingkonunnar ungu fór því fyrir siðanefndina sem komst strax að þeirri niðurstöðu að hún væri mjög brotleg enda hefði hún grafið undan virðingu þingsins.
En þótt það megi misnota almannafé gegnir öðru máli um misnotkun þingskapa. Ungur þingmaður varð uppvís að slíku í vikunni þegar hann óð upp í ræðustól og apaði upp sömu vitleysuna og búið var að víta þingkonuna fyrir. Þetta er ákaflega almúgalegur maður sem gengur um á sokkaleistunum og rekur nefið ofan í það sem honum kemur ekki við.
Þá vitum við það.
Ef maður ætlar að komast upp með morð á Alþingi þarf maður að vera á réttum aldri, af réttu kyni, með bindi og alls ekki á sokkaleistunum eða með húfu. Það er betra að myrða ekki undir dagskrárliðnum: Störf þingsins, því það væri misnotkun á þingsköpum og óvirðing við virðingu þingsins. Betur færi á því að myrða, til dæmis í kaffitímanum og að öðrum þingmönnum ásjáandi, sem gætu ekki sagt frá eða farið fram á að málið yrði rannsakað án þess að óvirða þingið og varpa þannig rýrð á störf Alþingis.
„Sá sem kemur upp um þig er hinn raunverulegi sökudólgur í málinu“
Og þá höfum við líka fengið svarið við því hvernig hinum alræmdu þingmönnum á Klaustri datt í hug að draga sendiboðann fyrir dómstóla, langveikan öryrkja, þegar almenningi blöskraði bullið og klámið sem þeir létu út úr sér þar sem þeir sátu að sumbli í vinnutímanum? Svarið má lesa úr nýjasta dómi siðanefndar Alþingis. Það sem þú gerir skiptir ekki máli ef það kemst ekki upp um þig, ergo, sá sem kemur upp um þig er hinn raunverulegi sökudólgur í málinu. Það er hann sem kemur í veg fyrir að þú getir hallað þér aftur í bílsætinu og brunað um veiðilendur endurgreiðslukerfis Alþingis meðan vasarnir fyllast, það er sendiboðinn sem ber sök á því að þú getur ekki hallað þér aftur í barstólnum á Klausturbar á vinnutíma og látið móðan mása um allar helvítis kellingarnar á þingi sem þig langar til að ríða.
Takk, kæra siðanefnd Alþingis, fyrir að leiða okkur í allan sannleika um málið. Það eru semsagt ekki bara þingmennirnir á Klaustri sem hafa þetta sérkennilega viðhorf. Þetta er sjálfur kjarninn í virðingu Alþingis, eða öllu heldur virðingunni fyrir virðingu Alþingis.
Sem er afskaplega sjaldgæf, eða eigum við að segja fágæt.
Athugasemdir