Fámennur hópur þingmanna tekur þingið í gíslingu með málþófi, að mati þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þingmenn Miðflokksins töluðu um þriðja orkupakkann í 15 klukkutíma á Alþingi í gær, alveg fram undir morgun þegar þingfundi var slitið klukkan sex.
Bryndís Haraldsóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein í Fréttablaðið í dag þar sem hún hvetur til þess að ráðum verði beitt til að stöðva umræður þingmanna Miðflokksins sín á milli og leiða málið til lykta.
„Það er nefnilega ekkert í þingsköpum sem bannar þingmanni að flytja sömu ræðuna tvisvar, eða í tugi skipta, sé út í það farið,“ skrifar Bryndís. „Málfrelsi þingmanna er mikilvægt og er það sérstaklega varið í flestum þjóðþingum heims. En málþóf á ekkert skylt við málfrelsi eða lýðræði, og þekkist nánast hvergi utan Íslands. Málþóf er séríslenskt fyrirbrigði.“
Bryndís segir mikilvægt að Alþingi sé skilvirkur vinnustaður og að mál séu á endanum kláruð með málamiðljunum eða atkvæðagreiðslum þar sem hreinn meirihluti ræður. „Daga og nætur eru þingfundirnir undirlagðir af ræðum þingmanna úr einum þingflokki þar sem hver þingmaðurinn fer í ræðustól á fætur öðrum og samflokksþingmennirnir tínast í andsvör við þann fyrri. Að ógleymdu hólinu hvers til annars, það er gott að fá klapp á bakið.“
Hún bendir á að skýrt sé kveðið á í þingsköpum um að andsvör séu aðeins heimiluð með leyfi forseta Alþingis. Einnis sé að finna heimild í 71. gr. þingskapalaga til þess að takmarka umræður. „Ég tel rétt og eðlilegt að þingheimur hugi að þessum heimildum til framtíðar,“ skrifar Bryndís. „Núverandi fyrirkomulag, þar sem fámennur hópur stjórnarandstæðinga getur tekið þingið í gíslingu, gengur ekki til framtíðar.“
Athugasemdir