Því hefur verið fleygt að vinsældir lárperunnar meðal breskra stúdenta geti haft slæm áhrif á framtíð þeirra. Þó ekki af heilsufarsástæðum, enda er þetta ágæta aldin stútfullt af hollustu, heldur að sú breyting sem orðið hafi á mataræði þeirra muni steypa þeim í skuldir og gera þeim erfiðara með að koma undir sig fótunum að námi loknu. Enda er ristað brauð með lárperu nokkuð dýrara en hið sívinsæla stúdentafæði, baunir á ristuðu brauði. Þó hér sé líklegast nokkuð djúpt í árinni tekið breytir það því ekki að vinsældir lárperunnar hafa aukist til muna í flestum Evrópulöndum og víðar undanfarið. Holland er meðal stærstu innflutningslanda lárperunnar og í Amsterdam búa tveir eldheitir aðdáendur hennar sem dýrka lárperu svo mjög að veitingastaður þeirra, The Avocado Show, býður eingöngu upp á rétti úr eða með lárperu.



Athugasemdir