Viðar Þorsteinsson, aktívisti sem starfar sem framkvæmdastjóri Eflingar, hefur skrifað Svanhildi Konráðsdóttur, framkvæmdastjóra Hörpu, bréf þar sem hann hvetur hana til að koma í veg fyrir að afturhaldsmaðurinn Douglas Murrey fái að halda fyrirlestur í Hörpu.
„Málflutningur Murrays er klæddur upp sem málefnaleg umræða, en engum dylst að um er að ræða hatursorðræðu sem ógnar öryggi fólks og á ekki heima í heilbrigðri samfélagsumræðu,“ skrifar Viðar.
„Viðburðurinn er skipulagður af aðilum sem áður fluttu inn hægriöfgamanninn Robert Spencer, reyndu að flytja inn kynþáttahatarann Tommy Robinson og reyndu á dögunum að efna til þjálfunar í vopnaburði fyrir skoðanabræður sína. Tengingar þessara afla við hryllilega ofbeldisverknaði eru öllum kunnar.“
Viðar hefur birt tölvupóstinn í heild á Facebook og hvetur aðra til að senda framkvæmdastjóranum sams konar áskorun. „Ég vona innilega að þú fyrir hönd Hörpu aflýsir viðburðinum í nafni mannréttinda og öryggis minnihlutahópa. Það væri mikill blettur á Hörpu ef þessi viðburður yrði kveikja að ofbeldisverknaði gegn innflytjendum eða öðrum sem eiga undir högg að sækja,“ skrifar hann.
Athugasemdir