Þingmenn Miðflokksins kalla eftir því að frumvarp dómsmálaráðherra um herta útlendingalöggjöf verði tekið sem fyrst á dagskrá Alþingis og fái þar skjóta en vandaða meðferð. Ólafur Ísleifsson og Birgir Þórarinsson gagnrýndu harðlega að umræðu um málið hefði verið frestað í gær. „Þessar tafir geta kostað ríkissjóð hundruð milljóna,“ sagði Birgir. „Er eitthvað ósætti hér milli stjórnarflokkanna? Eru sjálfstæðismenn sáttir með þessa meðferð? Ég spyr.“
Þá fullyrti Ólafur Ísleifsson að útlendingafrumvarpið væri „fallið til þess að treysta réttarstöðu hælisleitenda og þeirra sem eru í þeirri aðstöðu“. Eins og Stundin hefur fjallað um er þó ljóst að með frumvarpinu verður þrengt verulega að réttindum fjölda hælisleitenda. Frumvarpið felur meðal annars í sér að andmælaréttur þeirra verður takmarkaður, komið verður í veg fyrir að aðstandendur kvótaflóttafólks geti fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar og réttarstaða fjölskyldna sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru landi, svo sem í Grikklandi eða Ungverjalandi en sækjast eftir því að búa á Íslandi, verður veikt.
„Ástæða þykir til að bregðast við fjölgun umsókna einstaklinga um alþjóðlega vernd, sem þegar hafa dvalið í öðrum aðildarríkjum Schengen áður en þeir komu til Íslands svo að auka megi skilvirkni við vinnslu mála einstaklinga í þeirri stöðu,“ segir í greinargerð frumvarpsins. „Er því meðal annars lagt til að skýrt verði kveðið á um að beita skuli Dyflinnarreglugerðinni þegar þess er nokkur kostur, mælt fyrir um sjálfkrafa kæru í málum sem þessum, lagt til að kæra fresti ekki réttaráhrifum ef umsækjanda um alþjóðlega vernd hefur verið synjað um efnislega meðferð á þeim grundvelli að hann hafi þegar hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki, auk þess sem tilefni þykir til að hverfa frá þeirri framkvæmd að umsóknir einstaklinga sem þegar hafi hlotið alþjóðlega vernd séu teknar til efnislegrar meðferðar á grundvelli undantekninga 2. mgr. 36. gr. um sérstök tengsl og sérstakar ástæður.“
Athugasemdir