„EES samningurinn er ekki “alþjóðlegur” og hefur ekkert með ferðafrelsi, nám og lífsgæði ungmenna að gera. EES samningurinn er EKKI í uppnámi. Þetta er ástæðulaus og óskiljanlegur hræðsluáróður.“
Þetta fullyrða samtökin Orkan okkar á Facebook í dag. Um er að ræða viðbrögð við skilaboðum 272 ungra Íslendinga sem keyptu opnuauglýsingu í Fréttablaðinu þar sem lýst er stuðningi við áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum og einangrunarhyggju hafnað.
„EES samningurinn og annað alþjóðlegt samstarf hefur fært Íslendingum lífsgæði ótal tækifæri sem væri óhugsandi að vera án. Tækifæri eins og frelsi til að ferðast, stunda viðskipti, búa og mennta okkur í Evrópu og lengi mætti telja,“ segir Kristinn Árni L. Hróbjartsson í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum fyrir hönd hópsins.
Samtökin Orkan okkar, sem safnað hafa nær 14 þúsund undirskriftum gegn innleiðingu þriðja orkupakkans, gefa lítið fyrir skilaboð ungmennanna og segja EES-samninginn ekkert hafa með ferðafrelsi, nám og lífsgæði ungmenna að gera.
Þá fullyrða þau að EES-samningurinn verði ekki settur í uppnám þótt Íslendingar hafni þriðja orkupakkanum. Á meðal þeirra sem haldið hafa fram hinu gagnstæða er Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, sem telur að með því að hafna því að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum vegna þriðja orkupakkans væru Íslendingar„að senda skilaboð sem gætu teflt þátttöku landsins í EES-samstarfinu í tvísýnu“.
Gegnum EES-samninginn njóta Íslendingar réttinda til að stunda nám, starfa og búa í öðrum EES-ríkjum. Þá veitir EES-samstarfið Íslendingum aðild að samstarfsverkefnum Evrópusambandsins um rannsóknir og þróun.
Margsinnis hefur verið sýnt fram á mikilvægi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem viðskiptasamnings fyrir Íslendinga og það hvernig frjálst flæði vöru, fjármagns, vinnuafls og þjónustu hefur skipt sköpum fyrir innflutnings- og útflitningsgreinar og bætt lífskjör landsmanna.
Athugasemdir