„Ekki spila með framtíðina okkar,“ eru skilaboð 272 ungmenna sem keyptu auglýsingu í Fréttablaðinu í dag til stuðnings áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum.
„Auglýsingin er, eins og fram kemur í henni, kostuð af fólkinu á myndunum,“ segir Kristinn Árni L. Hróbjartsson, sem sendi tilkynningu fyrir hönd hópsins. „Fólkið er allt undir fertugu og spannar megnið af hinu pólitíska litrófi, bæði flokksbundið og óflokksbundið. Fólkið er af öllum kynjum, með ólíkan bakgrunn, búsett erlendis og víðsvegar um landið.“
Kristinn segir umræðu um EES-samninginn undanfarin misseri hafa verið knúna áfram af síendurteknum rangfærslum og ósannindum, nú síðast um þriðja orkupakkann. „Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi um úrsögn Breta úr Evrópusambandinu og í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016 svaf ungt fólk á verðinum með afleiðingum sem eru öllum ljósar,“ segir hann. „EES samningurinn og annað alþjóðlegt samstarf hefur fært Íslendingum lífsgæði ótal tækifæri sem væri óhugsandi að vera án. Tækifæri eins og frelsi til að ferðast, stunda viðskipti, búa og mennta okkur í Evrópu og lengi mætti telja.“
Kristinn segir Íslendinga njóta góðs af þessu og líta í dag á þessa hluti sem sjálfsagða. „Því segjum við einum rómi: Ekki spila með framtíð okkar.“
Athugasemdir