Seyðisfjörður hefur sett erlendum ferðamönnum leiðbeinandi reglur um framkomu gagnvart bæjarbúum. Mikill fjöldi ferðamanna kemur til Seyðisfjarðar á skemmtiferðaskipum yfir sumartímann og hefur hegðun þeirra valdið óánægju bæjarbúa. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta byrjaði fyrir tveimur árum, þá var hópur sem fór að ræða þessi mál,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir bæjarstjóri. „Það var orðinn nettur pirringur því fólk er að taka myndir inn um glugga hjá fólki er jafnvel að ganga inn í garða. Þetta er pínulítill bær og það er rosalega mikil ferðmannaumferð hér. Þá kviknaði þessi hugmynd.“
Seyðisfjörður er fyrstur bæjarfélaga til að setja sér reglur af þessu tagi. Von er á um 70 skemmtiferðaskipum til bæjarins í sumar. Í reglunum eru ferðamenn meðal annars beðnir um að taka ekki myndir af börnum á leikvöllum nema með leyfi frá foreldrum. Þá eru þeir beðnir um að ganga vel um náttúru landsins og skilja ekki eftir sig rusl.
Að sögn Aðalheiðar þarf bærinn að koma reglunum betur á framfæri. Eru þær unnar í samstarfi við AECO, samtök leiðsöguskipafyrirtækja á norðurslóðum og verður þeim dreift í Norrænu sem siglir vikulega til Seyðisfjarðar á sumrin. „Þetta er nýkomið út og það á eftir að taka langan tíma að koma þessu í umferð en í gegnum AECO mun þetta fara til þeirra skipafélaga sem heyra undir þeirra félagasamtök,“ segir Aðalheiður.
Athugasemdir