Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði viljað ganga lengra en gert er í frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og heimila þungunarrof án tímamarka.
Þetta kom fram í ræðu hennar áðan þar sem hún lýsti yfir eindregnum stuðningi við frumvarp heilbrigðisráðherra til laga um þungunarrof. Atkvæðagreiðsla stendur nú yfir um þingmálið.
„Þetta er grundvallarmál sem snýst um sjálfræði kvenna að mínu viti, réttindi þeirra til að ráða yfir eigin líkama og eigin lífi, langþráð réttindamál, en um leið fylgir því frelsi sem boðað er í frumvarpinu mikil ábyrgð,“ sagði forsætisráðherra og bætti við: „Ég treysti fólki og konum til að taka ekki slíkar ákvarðanir af neinni léttúð. Ég treysti konum fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir þessum réttindum.“
Sagði Katrín að kona yrði ekki frjáls nema hún réði yfir eigin líkama. „Þetta er skref í þá átt að gera konur í þessu landi frjálsari og ég styð það frumvarp heilshugar og hefði sjálf stutt það að hafa engin tímamörk.“ Þess má geta að lögin eru með þeim hætti í Kanada.
Sigmundur Davíð sagði yfirlýsingu Katrínar sláandi og kvartaði yfir því að umræðan hefði „aldrei fengið að snúast um það hver eru hin eðlilegu tímamörk“.
Athugasemdir