Malasískt fjárfestingafélag er við það að ganga frá kaupum á 80 prósenta hlut í Icelandair Hotels. Félagið er dótturfélag Berjaya Corporation sem stofnað var af malasíska auðkýfingnum Vincent Tan. Þetta herma heimildir ViðskiptaMoggans.
Icelandair Groups setti hótelfélag sitt á sölu í fyrra, en mun halda eftir 20 prósenta hlut. Vincent Tan er 67 ára fjárfestir, sem keypti enska knattspyrnufélagið Cardiff City árið 2010. Forbes metur eignir Tan um 770 milljón dollara virði, andvirði um 94 milljarða króna.
Í febrúar tilkynnti nýstofnaða dótturfélagið kauphöllinni í Kuala Lumpur að verið væri að ganga frá 1,6 milljarða króna kaupsamningi á lóðinni Geirsgötu 11 í Reykjavík, sem hefur verið í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra HB Granda. Hótel Icelandair Hotels eru 23 talsins víðs vegar um Ísland og vinnur félagið meðal annars að uppbyggingu nýs hótels við Austurvöll. Hótelkeðjan hagnaðist um 293 milljónir króna í fyrra. Tengiliður Berjaya í umsvifum félagsins á Íslandi er samkvæmt ViðskiptaMogganum Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Athugasemdir