Mannkynið sóar náttúruauðlindum jarðarinnar og um ein milljón tegunda dýra og plantna er í útrýmingahættu vegna framgöngu manna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna sem var kynnt í gær.
„Þarna er dregin upp mjög alvarleg mynd,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, við Morgunblaðið. „Þetta er mikilvæg viðvörun til mannkyns um í hvað stefnir. Ef fram heldur sem horfir blasir við okkur hnignun lífríkisins og vistkerfanna sem við byggjum afkomu okkar á.“
Í skýrslunni er varað við ofnýtingu náttúruauðlinda og loftslagsvá og bent á að þessir tveir þættir haldist í hendur. Breytt nýting landsvæðis á síðustu 50 árum hafi ýtt undir losun gróðurhúsalofttegunda og hvort tveggja hafi sett tegundir í útrýingarhættu. 93 prósent helstu fiskistofna séu í hnignun, meðal annars vegna ofveiði. Í skýrslunni er mælt með því að koma þurfi böndum á eyðingu hitabeltisskóga, draga úr neyslu kjöts og hætta ríkisstyrkjum til orkufreks iðnaðar og framleiðslu kolefnaeldsneytis.
„Það er mikilvægt að ráðast í aðgerðir þar sem við tryggjum frekari vernd búsvæða og vistkerfa, sjálfbæra nýtingu auðlinda og endurheimt fyrri gæða vistkerfanna,“ segir Guðmundur Ingi. „Þetta er leiðarstefið sem þarf að hafa í huga þegar við horfum til markmiðssetningar fyrir árið 2030.“
Athugasemdir