Á þeim 29 árum sem Stígamót hafa starfað hafa tæplega 9.000 manns leitað sér aðstoðar hjá okkur. Á bak við tölurnar eru manneskjur, oftast konur sem allar eiga sínar einstöku sögur um mannréttindabrot. Fæstar hafa þær reynt að leita réttar síns, en þær sem hafa haft kjarkinn til þess, hafa sjaldnast verið teknar alvarlega, hvorki af réttarkerfinu né af öðrum stofnunum samfélagsins.
Ein þeirra var Sigrún Pálína Ingvarsdóttir. Einstaklega heilsteypt, hugrökk og kærleiksrík kona með ríka réttlætiskennd. Saga þessarar baráttukonu er samofin sögu Stígamóta. Hún vogaði sér ásamt tveimur öðrum konum að bera þáverandi biskup sökum um kynferðisbrot og ögraði þannig einni af virtustu og elstu valdastofnunum landsins. Fulltrúi valdsins sagði að þarna væri um að ræða „einhverja hræðilegustu ásökun sem hægt væri að bera fram“. Það varð að meginatriði málsins, ekki sekt eða sakleysi biskupsins. Komið var fram við Sigrúnu Pálínu eins og forhertan brotamann, en ekki brotaþola og það sama gilti um þau sem stilltu sér upp í skotlínunni með henni. Viðbrögðin voru heiftúðug og fjölmiðlarnir loguðu.
Biskupinn kærði m.a. Guðrúnu Jónsdóttur eldri, stofnanda Stígamóta, fyrir að virða ekki þögnina sem honum fannst rétt að ríkti um málið. Hún hafði staðfest við fjölmiðla að beiðni kvennanna að þær hefðu leitað hjálpar á Stígamótum vegna hans. Persónuvernd krafðist þess að öllum skjölum Stígamóta yrði eitt, þó þar væri ekki stafkrók að finna um ofbeldismenn. Guðrún sagði fyrir rétti að hún hefði átt tvo kosti, annars vegar að styðja biskupinn, ellegar að styðja konurnar sem leituðu hjálpar hjá Stígamótum. Valið var henni auðvelt. Félagsráðgjafafélagið skrifaði henni bréf og fór fram á að hún notaði ekki starfstitilinn félagsráðgjafi. Hún hefur síðar sagt að þetta hafi verið grófasta aðför sem gerð hafi verið að starfseminni og starfskonur voru við það að gefast upp gegn ofurefli valdastofnanna. Það hafi verið staðfesta og óbilandi kjarkur Sigrúnar Pálínu sem gaf þeim kraftinn til þess að halda út. Aldrei kiknaði hún!
Það tók hana 33 ár að berjast fyrir sannleikanum. Trúin og samfélag kirkjunnar var henni alltaf mikils virði. Þegar órétturinn var loksins viðurkenndur, var það sem skipti Sigrúnu Pálínu mestu máli að hún náði sáttum við kirkjuna. Hún fékk verðskuldaðar sanngirnisbætur og færði Stígamótum með stolti eina milljón króna til starfseminnar. Baráttan hefur sannarlega skilað árangri og Guðrún Jónsdóttir eldri, stofnandi Stígamóta, hefur líka hlotið heiðursviðurkenningu Félagsráðgjafafélags Íslands fyrir störf sín. Á Stígamótum erum við stoltar af að hafa veitt báðum þessum frumkvöðlum kvennabaráttunnar viðurkenningar.
Það er ómetanlegt hversu mikilvæg fyrirmynd Sigrún Pálína var öðrum konum sem án hennar fordæmis hefðu ekki haft kjarkinn til þess að segja frá þeim órétti sem þær höfðu verið beittar. Hennar stærsta gjöf er líklega sú að fleiri og fleiri brotaþolar kynferðisofbeldis neita í dag að bera skömmina. Það skal áréttað að þetta var löngu fyrir daga #metoo bylgjunnar. Þöggun á kynferðisofbeldi er loksins orðin illa liðin í samfélaginu.
Við sendum fjölskyldu Pálu innilegar samúðarkveðjur og kveðjum hana með virðingu og þakklæti.
____________
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu en er endurbirt hér með leyfi höfunda.
Athugasemdir