Ríkisstjórnin telur ekki æskilegt að binda í lög að Seðlabanki Íslands skuli styðjast við markmið um hátt atvinnustig til viðbótar við markmið um verðstöðugleika, fjármálastöðugleika og trausta og örugga fjármálastarfsemi. Atvinnustigsmarkmið kynnu að stangast á við markmið um verðstöðugleika. Þetta kemur fram í greinargerð frumvarps Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til nýrra seðlabankalaga.
Nýsjálendingar hverfa frá einhliða verðbólgumarkmiði
Ásgeir Brynjar Torfason, lektor í fjármálum og reikningsskilum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur hvatt til þess að markmið um atvinnustig verði lögfest við heildarendurskoðun seðlabankalaga. Slík lagabreyting var gerð í Nýja-Sjálandi í fyrra en Grant Robertson, fjármálaráðherra landsins, sagði að með því yrði viðurkennt hve mikilvægt sé að beita peningastefnunni til að styðja við raunhagkerfið og verðmætasköpun í landinu. Þannig fengi Seðlabanki Nýja-Sjálands „tvíþætt umboð líkt og tíðkast í löndum á borð við Bandaríkin, Ástralíu og Noreg“.
Breytingin er athyglisverð í ljósi þess að Nýja-Sjáland ruddi brautina með innleiðingu einhliða verðbólgumarkmiðs árið 1990 en í kjölfarið gerðu tugir annarra ríkja slíkt hið sama, meðal annars Íslendingar með lagabreytingu árið 2001 þar sem markmið um fulla atvinnu var fjarlægt úr seðlabankalögum og verðstöðugleiki gerður að meginmarkmiði peningastefnunnar.
Evrusvæðið laskað vegna verðbólguþráhyggju
Adam Tooze, prófessor í hagsögu við Columbia-háskóla í Bandaríkjunum, birti nýlega grein í vefritinu Social Europe þar sem hann rekur hvernig einstrengingsleg áhersla á verðstöðugleika hefur viðhaldið gríðarlegu atvinnuleysi á evrusvæðinu og staðið í vegi fyrir efnahagslegri uppbyggingu.
Hann telur að efnahagsþróun undanfarinna áratuga hafi ekki rennt styrkum stoðum undir röksemdir þeirra sem töldu að einhliða verðbólgumarkmið myndi ýta undir atvinnu til langs tíma. Þannig hafi til að mynda Seðlabanki Bandaríkjanna, með sitt tvöfalda markmið, náð betri árangri en stjórnvöld víða annars staðar í glímunni við verðbólgu. Einstrengingsleg verðbólgumarkmið geti orðið til þess að seðlabönkum mistakist að grípa til aðgerða til að örva hagkerfið í tæka tíð og fyrirbyggja verðhjöðnun.
„Mikilvægt að ný lög auki ekki á vandann“
Ásgeir Brynjar, einn þeirra sem sótt hafa um stöðu seðlabankastjóra, vitnar til sjónarmiða Adam Tooze í umsögn sinni um frumvarp til nýrra heildarlaga um Seðlabanka Íslands. Hann veltir því upp að efnahagsáföll sem Ísland kann að ganga í gegnum á komandi árum geti orðið afdrifarík fyrir atvinnustigið.
Athugasemdir