Tímamót urðu í sögu mannkyns í dag þegar fyrsta myndin af svartholi var birt opinberlega. Myndin er af ógnarstóru svartholi í 50 milljón ljósára fjarlægð.
Myndin sýnir efni í plasmaformi hverfast um yfirborð myrkvaðs svarthols. Annað hvort svartholið sjálft, eða yfirborð þess, snýst réttsælis.
Svartholið hefur 6,5 milljörðum sinnum meiri massa en sólin og er þvermál þess þremur milljónum sinnum lengra en þvermál jarðarinnar. Þetta er talið vera eitt stærsta svarthol hins sýnilega heims.
Átta sjónaukar í Evrópu, Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og Suðurskautslandinu náðu myndinni sem raðað er saman til að mynda heildræna útgáfu af svartholi. Myndin er afsrakstur Event Horizon Telescope-verkefnisins, fjölþjóðlegs samstarfs sem meðal annars var styrkt var af Evrópusambandinu.
Kenningin um svarthol byggir á almennri afstæðiskenningu Alberts Einstein sem hann útfærði árið 1915. Myndin, sem nú hefur loksins náðst af svartholi, samræmist kenningunni ótrúlega vel, að sögn vísindamanna á blaðamannafundinum í Brussel í Belgíu þar sem myndin var afhjúpuð í dag. Afraksturinn var kynntur á sex blaðamannafundum í jafnmörgum löndum samtímis í dag.
Athugasemdir