Lækkun sérstaka skattsins á fjármálafyrirtæki, bankaskattsins svokallaða, mun kosta ríkissjóð samtals 18,3 milljarða á kjörtímabilinu.
Þetta kemur fram í greinargerð frumvarps um lækkun skattsins sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi í dag.
„Með frumvarpinu er komið til móts við gagnrýni hagsmunaaðila á fjárhæð sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki í því skyni að liðka fyrir lækkun útlánavaxta og hækkun inneignarvaxta til hagsbóta fyrir almenning,“ segir í greinargerðinni.
Bankaskatturinn var innleiddur í tíð vinstristjórnarinnar en hækkaður umtalsvert og jafnframt látinn taka til fjármálafyrirtækja í slitameðferð í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Með frumvarpi Bjarna Benediktssonar er lagt til að gjaldhlutfall skattsins lækki í fjórum jöfnum áföngum á árunum 2020 til 2023, úr 0,376 prósentum niður í í 0,145 prósent frá og með árinu 2023.
Er þetta í samræmi við fyrirheit sem ríkisstjórnin hefur gefið í stjórnarsáttmála og fjármálaáætlunum sínum.
Athugasemdir