Útlendingastofnun vísaði sérstaklega til þess í rökstuðningi vegna ráðningar manns í þjónustu- og móttökustarf á vegum stofnunarinnar að viðkomandi hefði starfað við öryggisvörslu hjá Securitas um þriggja ára skeið og komið þannig að „úrræðum á vegum Útlendingastofnunar“.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem mannauðsstjóri Útlendingastofnunar sendi 44 umsækjendum um starf í þjónustuteymi hjá móttökumiðstöð Útlendingastofnunar í janúar síðastliðnum. Í starfsauglýsingunni var tilgreint að starfið fæli í sér „daglega þjónustu við umsækjendur um vernd, viðtöl og ráðgjöf og önnur tilfallandi verkefni á sviðinu“. Á meðal hæfnikrafna var „stúdentspróf eða sambærileg menntun“.
Fram kemur í bréfi mannauðsstjóra til umsækjenda um starfið að sá sem varð fyrir valinu hafi „stundað nám“ við framhaldsskóla en „lokið námi frá Sjúkraflutningaskólanum“. Viðkomandi hafi víðtæka starfsreynslu, meðal annars sem öryggisvörður hjá Securitas. „Sem starfsmaður Securitas hefur hann starfað í úrræðum á vegum Útlendingastofnunar og þekkir því þá starfsemi mjög vel,“ segir í bréfinu.
Móttökumiðstöð Útlendingastofnunar er samkvæmt 27. gr. útlendingalaga „opið móttöku- og þjónustuúrræði“ fyrir hælisleitendur við komu þeirra til landsins. Þar er meðal annars hlúð að fórnarlömbum mansals og útlendingum í neyð og tekin viðtöl við hælisleitendur.
Athugasemdir