Ef WOW air fer í þrot með tilheyrandi efnahagssamdrætti ætlar stjórnarmeirihlutinn að endurskoða útgjaldaáform til lækkunar fremur en að örva efnahagslífið með auknum ríkisumsvifum.
Þetta kom fram í viðtali Stöðvar 2 við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um helgina. Aðspurður um möguleg viðbrögð við gjaldþroti fyrirtækisins sagði hann að þá yrði áætlunin endurskoðuð. „Það myndi þýða að við þyrftum að draga úr útgjaldaáformum.“
Samkvæmt skýrslu Reykjavík Economics sem greint var frá í helgarblaði Fréttablaðsins gæti brotthvarf WOW air af flugmarkaði leitt til þess að landsframleiðsla drægist saman um allt að 2,7 prósent.
Ef ríkisstjórnin brygðist við skellinum með niðurskurði ríkisútgjalda yrði það til þess fallið að auka enn á samdráttinn.
Samkvæmt 7. gr. laga um opinbera fjármál má fjárlagahalli aldrei vera meiri en 2,5 prósent af landsframleiðslu. Ef WOW færi á hliðina með þeim afleiðingum sem lýst er í skýrslu Reykjavík Economics er ljóst að skattstofnar myndu rýrna og skatttekjur minnka. Þyrfti þá væntanlega að skera niður ríkisútgjöld eða hækka skatta til að halli yrði ekki meiri en 2,5 prósent af vergri landsframleiðslu – sem myndi þá magna niðursveifluna enn frekar.
Hagfræðingar hafa gagnrýnt fjármálareglur laga um opinber fjármál harðlega og bent á að bannið við umtalsverðum hallarekstri á tímum efnahagssamdráttar gangi í berhögg við þær hagstjórnarkenningar sem voru ráðandi á Vesturlöndum um áratugaskeið eftir kreppuna miklu. Ekki hefur reynt á þessar skorður við hallarekstri, enda hefur ríkt góðæri síðan lög um opinber fjármál tóku gildi árið 2016.
„Stundum eru aðstæðurnar einfaldlega þannig að þær skapa fjárlagahalla án þess að stjórnvöld fái við ráðið. Og hvað á þá að gera, draga viðkomandi ráðherra fyrir landsdóm? Nei, þetta er fráleitt og fjármálastjórnunarlega óskynsamlegt,“ sagði Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og fyrrverandi ríkisskattstjóri þegar Stundin ræddi við hann um málið árið 2015.
Þá sagði Mark Blyth, stjórnmálahagfræðingur við Brown-háskóla og höfundur metsölubókar um niðurskurðarstefnu, að fjármálareglurnar sem Íslendingar hefðu sett sér væru fráleitar. „Þetta grefur undan sjálfvirku sveiflujöfnurunum (e. automatic stabilisers) og getur þannig dýpkað efnahagslægðina þegar þar að kemur,“ sagði hann í viðtali við Stundina árið 2017.
Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, impraði svo á því í viðtali við RÚV um helgina að hallareglan væri sveifluaukandi. „Hér er búið að koma upp reglu sem að getur aukið sveifluna og það þarf að taka í taumana áður en það verða einhver stórslys þess vegna,“ sagði hann.
Samkvæmt 10. gr. laga um opinber fjármál er ríkisstjórnum og Alþingi heimilt að endurskoða fjármálastefnu ef grundvallarforsendur hennar „bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum“. Fram kemur í greininni að í slíkum tilvikum sé „heimilt að víkja tímabundið eða í allt að þrjú ár frá skilyrðum 7. gr.“
Athugasemdir