Gerð verður 2 prósenta aðhaldskrafa til flestra málefnasviða hins opinbera frá 2020 til 2022 samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem birt var á vef Alþingis í dag.
Þetta stendur til þrátt fyrir að horfur séu á kólnun í hagkerfinu en samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar verður hagvöxtur aðeins 1,7 prósent í ár.
Stefnan er í samræmi við afkomumarkmið fjármálastefnunnar sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi kjörtímabils á grundvelli laga um opinber fjármál.
Aðhaldskrafan gagnvart heilbrigðisstofnunum, öldrunarstofnunum og skólum verður 0,5 prósent og engin aðhaldskrafa verður gerð til bótakerfa almannatrygginga og atvinnuleysis, sjúkratrygginga og dómstóla. Gert er ráð fyrir 3,6 til 4 prósenta atvinnuleysi á áætlunartímanum og munu útgjöld vegna atvinnuleysistrygginga þróast með hliðsjón af því.
Útgjöld til háskólastigsins lækka úr 46,8 milljörðum niður í 43,2 milljarða á næsta ári og aðhaldskröfur leiða meðal annars til þess að útgjöld til almanna- og réttaröryggis verða 1,9 milljörðum lægri á áætlunartímabilinu en þau hefðu ella orðið.
Þrátt fyrir aðhaldið munu framlög til flestra málaflokka hækka verulega næstu árin. Þá er gert ráð fyrir að fjárfestingarstig hins opinbera verði hærra en verið hefur; alls munu framlög ríkissjóðs til fjárfestingar nema um 400 milljörðum króna á árunum 2020 til 2024.
„Skapa má aukið svigrúm til fjárfestinga í innviðum á komandi árum með því að nýta afrakstur af eignum ríkisins,“ segir í greinargerð fjármálaáætlunar. „Í því skyni gæti t.d. komið til skoðunar að nýta söluandvirði á eignarhlutum ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, að skapa tekjur af uppbyggingu og þróun á landsvæðum í eigu ríkisins og með því að minnka eignarhluti ríkisins í opinberum fyrirtækjum eða breyta fjármagnsskipan þeirra til að gera þeim fært að auka arðgreiðslur. Einnig má taka upp notendagjöld fyrir afnot nýrra innviða og efna til samstarfs um verkefni með einkaaðilum og fagfjárfestum.“
Fæðingarorlof verður lengt í 12 mánuði á árunum 2020 og 2021 en kostnaður af þeirri aðgerð nemur 900 milljónum árið 2020, 2,7 milljörðum árið 2021 og 3,8 milljörðum frá og með árinu 2022.
Stofnframlög til almennra íbúða hækka um 2,1 milljarð frá og með árinu 2020 til ársins 2022 og stofnstyrkir til kaupa eða byggingar almennra íbúða vaxa einnig umtalsvert.
Þá aukast útgjöld til samgönguframkvæmda 4 milljörðum meira en áður stóð til frá og með 2020. Framlög til byggingar nýrra hjúkrunarrýma aukast um 500 milljónir króna árið 2020, 1,5 milljarða árið 2021 og 2 milljarða árin 2022 og 2023.
Hér má sjá útgjaldarammana í heild:
Samkvæmt fjármálaáætluninni munu umsvif ríkisins dragast saman á áætlunartímanum miðað við almenn umsvif í hagkerfnu.
Frumtekjur hins opinbera (þ.e. skatttekjur og annað en vaxtatekjur og óreglulegir liðir) fara úr því að vera 29,3 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2020 (931,8 milljarðar) niður í 27,8 prósent árið 2024 (1.093 milljarðar).
Frumútgjöld (þ.e. heildargjöld að frádregnum vaxtagjöldum) lækka einnig um eitt prósentustig, úr 26,9 prósentum árið 2020 (856,6 milljarðar) í 25,9 prósent árið 2024 (1.019 milljarðar).
Athugasemdir