Alþingi er með 13 prentáskriftir að Morgunblaðinu, 11 að DV og þrjár að Viðskiptablaðinu auk netáskrifta en einungis með netáskrift að Stundinni. Þá fær Alþingi 15 eintök af Fréttablaðinu og átta af Bændablaðinu auk rafræns aðgangs.
Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar um áskriftir Alþingis að fjölmiðlum.
Alþingi varði langmestum fjármunum í Morgunblaðið í fyrra, eða 1,1 milljón króna í áskriftir og 508 þúsund krónur í aðgang að Gagnasafni Mbl.is.
Eini enskumælandi fréttamiðillinn sem Alþingi er áskrifandi að er breska vikuritið The Economist þar sem fjallað er um alþjóðamál frá sjónarhóli markaðshyggju og frjálslyndisstefnu.
Alþingi er með 10 rafrænar áskriftir að The Economist auk prenteintaks og greiddi tæpar 184 þúsund krónur fyrir það í fyrra. Þá er Alþingi aðeins áskrifandi að einum norrænum miðli utan Íslands, danska blaðinu Weekendavisen.
Þingmenn og starfsmenn þingsins geta þó nálgast fjölda erlendra tímarita í gegnum Landsaðgang tímarita, en Alþingi greiðir 462 þúsund krónur á ári fyrir not af gagnagrunninum.
Hér að neðan má sjá svör forseta Alþingis við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar í heild:
_________________________
Fyrirvari vegna hagsmuna: Hér fjallar Stundin um mál er varða fjölmiðilinn með beinum hætti.
Athugasemdir