Stúdentaráð Háskóla Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun háskólaráðs um að ganga frá samkomulagi við Útlendingastofnun um tanngreiningar til að skera úr um aldur barna á flótta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stúdentaráði í morgun.
„Tillagan felur í sér að rektor sé falið, í samráði við Heilbrigðisvísindasvið, að ganga frá samkomulagi við Útlendingastofnun um verksamning við Háskóla Íslands um klíníska munnholsskoðun og röntgenmyndatökur á börnum á flótta,“ segir í tilkynningunni.
Aðeins einn fulltrúi í háskólaráði, fulltrúi stúdenta, greiddi atkvæði gegn tillögu rektors. Fjöldi starfsmanna háskólans hefur lýst yfir andstöðu við framkvæmdina, en skólinn hefur framkvæmt slíkar tanngreiningar frá árinu 2014 án samnings. Bendir Stúdentaráð á að slíkar rannsóknir hafi farið fram innan háskólans mun lengur og verið nýttar í fræðigreinar.
„Stúdentaráð telur það grafalvarlegt mál að slíkar rannsóknir hafi farið fram yfir svo langt tímabil á jafn viðkvæmum hópi, án samnings, og jafnframt að það hafi verið birtar vísindagreinar með gögnum og myndum af tönnum hælisleitenda,“ segir í tilkynningunni. „Þar sem gögnin hafa verið nýtt í opinberar fræðigreinar og vísindarannsókn telur Stúdentaráð að brotið hafi verið á vísindasiðareglum Háskóla Íslands frá árinu 2014.“
Stúdentaráð telur mörgum spurningum ósvarað, meðal annars hvort fylgdarlaus börn geti veitt upplýst samþykki fyrir þátttöku í slíkum rannsóknum.
„Stúdentaráð telur það skammarlegt að Háskóli Íslands virðist ekki hafa tekið eftirfarandi rök til greina við úrvinnslu málsins því enn standa eftir ósvaraðar spurningar,“ segir í tilkynningunni. „Það er Stúdentaráði þungbært að æðsta vald háskólans hafi samþykkt að Háskóli Íslands taki sér stöðu með þeim hætti sem samningurinn greinir, í málefnum hælisleitenda hérlendis.“
Athugasemdir