Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, sendu tilkynningu á nefnd um eftirlit með lögreglu, vegna framgöngu lögreglumanna gegn mótmælendum á Austurvelli í gær.
Sema Erla Serdar, formaður Solaris, var viðstödd mótmæli hælisleitanda á Austurvelli í gær. Sema segist ekki hafa annað séð en að mótmælin færu friðsamlega fram. „Barið var á trommur, hrópuð voru slagorð og fólk dansaði til þess að halda á sér hita.“ segir Sema.
Sema segir í tilkynningunni að það hafi ekki verið fyrr en lögreglan gerði tilraun til að ýta við hópnum og færa hann til sem að til ryskinga kom á milli mótmælenda og lögreglu. Hún segir sömuleiðis að piparúða hafi verið beitt á mótmælendur en enginn hafi verið varaður við. Hún hafi ekki séð neinn hlúa að mótmælendum í kjölfar þess að þau hafi verið spreyjuð.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að „á sjöunda tímanum lagði lögreglan hald á pappaspjöld og vörubretti úr fórum mótmælenda því hún taldi að verið væri að hlaða í bálköst.“
Sema segir pappaspjöldin líklegast hafa verið ætluð til þess að gera mótmælaspjöld. „Ég sá einstaklinga koma með pappaspjöld, ég gat ekki séð annað en það ætti að fara skrifa á þessi spjöld, sem sagt búa til mótmælaspjöld. Ég sá enga tilraun til að reyna kveikja eld,“ segir Sema.
„Ég sá enga tilraun til að reyna kveikja eld“
Lögreglan segir mótmælendur hafa reynt að verja spjöldin og brettin með því að leggjast ofan á þau og þess vegna hafi lögreglan þurft að beita afli. Eftir að afli var beitt, hafi einn mótmælanda sparkað í lögreglu og verið handtekinn. Annar mótmælandi hafi ráðist að lögreglumanni sem sá um handtökuna og verið handtekinn fyrir vikið. Við þetta telur lögreglan að hluti mótmælanda hafi gert að sér aðsúg og þeir hafi þurft að svara með notkun piparúða.
Sema spyr í tilkynningu til lögreglu hverjar verklagsreglurnar varðandi notkun lögreglu á piparúða séu. „Á ekki að aðstoða þá sem verða fyrir piparúða? Hvernig var það gert í þessu tilfelli? Var tryggt að allir vissu hvernig ætti að leita sér aðstoðar? Hvenær var kallað eftir sjúkrabíl? Var varað við að nota ætti piparúða? Hvernig réttlætir lögreglan notkun á piparúða á mótmælendur í þessu tilfelli? Var rétt staðið að handtökunum? Var tryggt að mótmælendur skyldu fyrirmæli sem þeir fengu?“
„Var tryggt að mótmælendur skyldu fyrirmæli sem þeir fengu?“
„Þarna er um viðkvæman minnihlutahóp að ræða sem þarf að standa vörð um réttindi þeirra nú þegar og það er mikið áhyggjuefni ef til átaka kemur milli þeirra og lögreglu. Að mínu mati er mjög alvarlvegt að grípa til vopna eins og piparúða við mómæli. Það er frelsi til að mótmæla í þessu landi og það er tjáningarfrelsi,“ segir Sema.
Lögreglan segir skiljanlegt að það veki eftirtekt þegar lögreglan neyðist til að verja sig með úða. Lögreglan segist sömuleiðis „forðast þvert á móti í lengstu lög að fara valdbeitingarleiðina.“ Þegar mótmæli færist yfir í skemmdarverk eða ef mótmælendur óhlýðnist eða ráðist gegn lögreglumönnum við skyldustörf þá sé öryggi borgara og lögreglu í hættu og við því þurfi lögregla alltaf að bregðast.
Athugasemdir