Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður, einn þeirra umsækjenda sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra gekk fram hjá við skipan í embætti dómara við Landsrétt, segir stöðuna í málinu afskaplega sorglega.
Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu sem kveðinn var upp í morgun var íslenska ríkið dæmt brotlegt vegna vinnubragða Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra þegar hún skipaði fjóra dómara við Landsrétt í trássi við mat hæfnisnefndar sumarið 2017.
„Niðurstaðan kemur ekki á óvart,“ segir Jóhannes Rúnar. „Þetta er staðfesting á því að það átti að fara eftir þeim reglum sem giltu. Það var ekki gert og þar af leiðandi sitjum við uppi með þennan dóm í dag, því miður. Þetta er afskaplega sorglegt. Nú þarf að vinna úr þeirri stöðu sem er komin upp.“
Jóhannes Rúnar var einn þeirra fimmtán umsækjenda sem dómnefnd mat hæfasta til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra gerði hins vegar tillögu um að skipti fjórum þeirra út, Jóhannesi Rúnari þar á meðal, fyrir fjóra sem ekki voru metnir á meðal þeirra hæfustu.
Jóhannes Rúnar kærði íslenska ríkið vegna málsins. Í dómi Hæstaréttar í málinu kom fram að dómsmálaráðherra hefði ekki farið eftir þeim reglum sem henni bar að fylgja þegar hún gerði tillögu um að vikið yrði frá áliti dómnefndar. Íslenska ríkið var dæmt til að greiða Jóhannesi Rúnari og Ástráði Haraldssyni, sem einnig hafði verið metinn á meðal þeirra hæfustu, 700 þúsund krónur hvorum.
Meðal þeirra sem Sigríður skipaði, sem metnir voru minna hæfir en Jóhannes Rúnar, var eiginkona Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og samflokksmanns Sigríðar. Þá valdi hún eiginmann samstarfskonu sinnar og eiganda lögmannsstofunnar Lex, Jón Finnbjörnsson, fram yfir 29 aðra sem metnir voru hæfari af sérstakri hæfisnefnd.
Athugasemdir