Íslandshótel hafa hagnast um hátt í 4 milljarða í ferðamannagóðærinu frá 2010. Þetta hefur gert eigendum hótelkeðjunnar kleift að greiða sér samtals 832 milljónir í arð, þar af 400 milljónir á undanförnum þremur árum.
Nýlega kom Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, fram í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 1 og gagnrýndi kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar. „Langar mig til að borga fólkinu þau laun sem kröfugerð verkalýðsfélaganna hljóðar upp á? Já, ég væri rosalega til í það. Svigrúmið er bara ekki svona,“ sagði hann. „Við vitum það að þetta mun hafa áhrif á verðbólgu.“
„Svigrúmið er bara ekki svona“
Eflingu – stéttarfélagi var tilkynnt um það í febrúarlok að eins konar skammarlisti yfir þá starfsmenn sem taka sér flesta veikindadaga hengi uppi á töflu í almennu rými starfsmanna á Grand hóteli, eins þeirra 18 hótela sem tilheyra Íslandskeðjunni. Þetta var, að því er fram kom í tilkynningu frá Eflingu, „aðeins eitt af mörgum atriðum sem hafa gert vinnustaðinn verulega óþægilegan fyrir lægst launaða starfsfólkið þar, sem flest er erlendis frá“. Mannauðsstjóri Íslandshótela hefur vísað þessum ásökunum á bug.
Aðaleigandinn fékk hundruð milljóna í arð
Samkvæmt nýjasta ársreikningi Íslandshótela var hreinn launakostnaður fyrirtækisins 4 milljarðar árið 2017 og starfsmannafjöldi 775 miðað við heilsársstörf. Í viðtalinu við Davíð kom fram að fólk í lægstlaunuðu hótelstörfunum væri að meðaltali með um 330 til 340 þúsund krónur á mánuði en ynni tvær helgar með vaktaálagi. „Nei nei, þetta eru ekki há laun, það er alveg rétt. Þetta er bara raunveruleiki sem blasir við okkur. Gjarnan myndi ég vilja hækka þetta miklu meira en þau spil sem eru á borðinu, en við þurfum alltaf að horfa á heildaráhrifin,“ sagði hann.
Faðir Davíðs er aðaleigandi hótelkeðjunnar, Ólafur D. Torfason, en hann á 70 prósenta hlut í Íslandshótelum. Af þeim 150 milljóna arðgreiðslum sem runnu út úr fyrirtækinu í fyrra komu meira en 100 milljónir í hlut eignarhaldsfélags Ólafs, ÓDT ráðgjafar ehf. Eigið fé þess nam 12,5 milljörðum í árslok 2017 en þar af var 69,37 prósenta hlutur þess í Íslandshótelum hf. metinn á 11,3 milljarða. ÓDT ráðgjöf hagnaðist um 323,5 milljónir árið 2017 og 675 milljónir árið 2016.
Athugasemdir