Sjómannafélagi Íslands var óheimilt að reka Heiðveigu Maríu Einarsdóttur úr félaginu. Þetta er niðurstaða Félagsdóms, sem dæmdi í dag Sjómannafélagið til að greiða eina og hálfa milljón króna í ríkissjóð í sekt og Heiðveigu Maríu 750 þúsund krónur í málskostnað. Vill hún að þeir sem að ákvörðuninni stóðu axli ábyrgð.
Heiðveig María var rekin úr félaginu á þeim grundvelli að hún hefði unnið gegn því með gagnrýni á stjórn þess og starfsmenn. Hún bauð sig fram til formanns í félaginu í haust, en framboðslistum hennar var hafnað af kjörstjórn. Dómurinn telur að breyta þurfi lögum Sjómannafélagsins þar sem segi að félagsmenn þurfi að greiða til félagsins í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi. Var því ákvæði beitt til að hafna lista Heiðveigar Maríu.
„Þetta var það sem við héldum fram allan tímann og þetta er staðfesting á því að þessi brottvikning og þriggja ára regla hafi verið ólögmæt,“ segir Heiðveig María. „Ég get svo sem ekki annað gert í framhaldinu en að gera þá kröfu að þeir sem að þessu stóðu axli ábyrgð og boði til kosninga. Ekki bara fyrir mig heldur alla félagsmenn.“
Félagsdómur telur að lýðræðislegar grunnreglur stéttarfélaga hafi verið brotnar í ferlinu og að skýr ásetningur hafi verið til staðar um að koma í veg fyrir að Heiðveig María gæti haft áhrif á stjórn félagsins.
Athugasemdir