„Það hefur ósjaldan gustað um Jón Baldvin Hannibalsson og sennilega aldrei sem nú. Í eðli sínu er Jón þó friðarins maður. Enginn þó FriðJón.“
Þetta skrifar Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er áttræðisafmæli Jóns Baldvins. Í greininni eys Jakob Jón Baldvin lofi fyrir stjórnmálaferil hans, orðfæri og mannkosti.
Sjö konur hafa stigið fram undir nafni og sakað Jón Baldvin um kynferðislega áreitni. Alls hafa 23 konur birt sögur sínar á vefsíðu og halda frásagnir áfram að berast í sérstökum MeToo hópi kvennanna á Facebook.
„Með einstöku íslensku orðfæri mælir hann jafnan óhræddur og tæpitungulaust. Eftir hann liggja ótal snjallar ritgerðir, greinar og bækur. Að minnsta kosti tveggja nýrra ritverka eftir hann er að vænta á þessu ári,“ skrifar Jakob Frímann og vísar þar meðal annars til væntanlegrar bókar Jóns Baldvins „Vörn fyrir æru – hvernig fámennur hópur öfgafeminista hefur sagt réttarríkinu stríð á hendur“. Fjallar sú bók um ásakanir kvennanna.
„Þótt ekki sé vitað með vissu hvar okkar maður kýs að halda til á stórafmælinu, mætti vel ímynda sér hann ganga íhugulan á vit Íslandsstrætis í Litháen eða orna sér að kveldi við Íslandstorg í Tallinn þar sem þegnarnir kunna vel að meta dýrmætt framlag hans til sjálfstæðisbaráttu Eistlands, Lettlands og Litháen,“ skrifar Jakob Frímann í lok greinarinnar. „Ég óska afmælisbarninu – og fjölskyldu þess allri – friðar og velfarnaðar á merkum tímamótum.“
Athugasemdir