Páll Ásgeir Guðmundsson, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, segir að ríkisstjórnin vilji halda persónuafslætti og skattleysismörkum óbreyttum næstu árin meðan skattkerfisbreytingar verða innleiddar.
„Hann [persónuafslátturinn] verður frystur á meðan verið er að innleiða nýtt kerfi, í þrjú ár. Skattleysismörkum verður haldið óbreyttum,“ segir Páll í viðtali við Mbl.is.
Sé þetta raunin munu persónuafsláttur og skattleysismörk rýrna umtalsvert að raunvirði. Ummælin eru að vissu leyti í samræmi við upplýsingar sem gefnar hafa verið í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins. Þar er talað um „tillögur starfshópsins að breyttum skattþrepum, skatthlutfalli, persónuafslætti og skattleysismörkum“ en gefnar upp fjárhæðir persónuafsláttar og skattleysismarka sem eru óbreyttar, þær sömu og gilda árið 2019, þ.e. 56.477 krónur og 159.174 krónur.
Í glærusýningu fjármálaráðherra kom hins vegar fram að áætluð skattleysismörk miðað við verðlagsþróun yrðu 178.503 krónur árið 2022, þ.e. myndu ekki haldast óbreytt næstu árin. Einungis persónuafsláttur yrði frystur á tímabilinu.
Athugasemdir