Formaður félags heilsugæslulækna segir skort vera á heilsugæslulæknum víða um land. Staðan sé ekki nútímafólki bjóðandi.
„Það er skortur á heilsugæslulæknum á stórum svæðum úti á landi. Hún er brotakennd og það er stóra vandamálið. Það er verið að redda málunum með af leysingum til skamms tíma og er eiginlega ekki nútímafólki bjóðandi,“ segir Salóme Ásta Arnardóttir, formaður Félags heilsugæslulækna, við Fréttablaðið í dag.
Salóme segir að heilsugæslulæknar séu nú um 200 á landinu en þyrftu að vera 400 til að standast samanburð við Norðurlöndin. Segir hún vanta fjármagn frá hinu opinbera til þess að hægt verði að fjölga nemum í heilsugæslulækningum.
„Við erum um 200 núna og á sama tíma erum við að útskrifa um átta á ári og helmingur heilsugæslulækna hættir á næsta áratug vegna aldurs,“ segir Salóme. „Það eru einstaklingar sem vilja vera heimilislæknar en það er bara ekki pláss fyrir fleiri en 40 nema í einu.“
Athugasemdir