Bílaleigan Procar ehf. seldi bíla fyrir meira en tvo milljarða árin 2014, 2015 og 2016. Á þessum árum stóð fyrirtækið í stórtæku svindli þar sem átt var við kílómetrastöðu notaðra bíla til að gera þá söluvænlegri.
Kveikur fjallaði um málið í gær en fyrirtækið hefur sent út yfirlýsingu þar sem háttsemin er að hluta viðurkennd.
200 milljóna hagnaður var af rekstri bílaleigunnar árin 2015 og 2016 ef litið er fram hjá fjármagnsliðum, en alls voru rekstrartekjurnar 2,2 milljarðar árið 2016 og 1,3 milljarðar árið 2015. Þetta kemur fram í ársreikningum félagsins. Procar er í eigu Gunnars Björns Gunnarssonar og Platinum ehf., eignarhaldsfélags Haraldar Sveins Gunnarssonar.
Þegar vaxtagjöld eru tekin með í reikninginn hagnaðist fyrirtækið um 21 milljón árin 2015 og 2016. Hagnaðurinn var meiri árin á undan, 51 milljón árið 2014 og 11,3 milljónir 2013. Þetta gerði eigendum kleift að greiða sér út arð upp á 48 milljónir króna, en ákvörðunin var tekin á aðalfundi félagsins þann 27. júlí 2015.
Samkvæmt yfirlýsingu sem Procar sendi út í gær var átt við kílómetramælana frá 2013 til 2015. Eins og Stundin greindi frá í dag stóð svindlið þó yfir langt fram eftir árinu 2016 og benda fyrirliggjandi gögn til þess að Gunnar Björn, eigandi og framkvæmdastjóri, hafi sjálfur tekið þátt í því. Eignir fyrirtækisins voru metnar á um milljarð í árslok 2016 en eigið fé þess nam 23 milljónum.
Athugasemdir