Hringbraut birti frétt í gær um að meðal áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum stæði vilji til þess að slíta stjórnarsamstarfinu við Vinstri græn og hefja samstarf við Miðflokkinn í staðinn. Stefnt væri að slíkum breytingum eftir að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði lyki en til að hægt væri að mynda stjórnarmeirihluta þyrftu óháðu þingmennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason að ganga í Miðflokkinn eða styðja stjórnina. Bjarni Benediktsson gæti orðið forsætisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson utanríkisráðherra.
Skrifin vöktu nokkra kátínu á samfélagsmiðlum áður en þau hurfu af yfirborði jarðar. Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri, hafði á orði að svo virtist sem Hringbraut hefði „tekið að sér að skrifa fréttaskýringar af Klausturbarnum, samfélagsumfjöllun á fimmtánda glasi“. „Svona dreymir sauðdrukkna miðaldra karla um það leyti að þeir þeir missa minnið. Svo vakna þeir 36 tímum seinna, hafa týnt fötunum og skilja ekkert í veröldinni sem þeir lifa innan.“
Í greininni á vef Hringbrautar kom fram að Sjálfstæðismönnum hefði „almennt liðið mjög illa með að vera í ríkisstjórnarsamstarfi við Vinstri græna undir forsæti þeirra“ og það þætti „dapurlegt hlutskipti“ fyrir flokkinn. Þá kom fram að ýmsir áhrifamenn í Framsóknarflokknum væru sagðir eiga sér þann draum að takast mætti að sameina „systurflokkana Framsókn og Miðflokkinn“. Flokkarnir hefðu sams konar stefnu og sæktu fylgi í sömu hópa. „Innan Miðflokks eru einnig gamlir framsóknarmenn sem vinna að sáttum. Forsenda fyrir sáttum er talin vera sú að flokkarnir séu sömu megin við borðið, annað hvort báðir í stjórn eða báðir í stjórnarandstöðu.“
Stundin sendi Hringbraut fyrirspurn um fréttina. Fram kemur í svari að um hafi verið að ræða pistil sem hafi óvart vistast sem frétt. Ef vel er að gáð má nú finna pistil á vef Hringbrautar undir dálkinum Dagfari, svipaðan þeim sem áður birtist sem frétt.
Athugasemdir