Pétur Guðgeirsson, fyrrverandi dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, segir Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafa misfarið með vald og hlutast með ólögmætum hætti til um innanríkismálefni fullvalda ríkis þegar hann lýsti yfir stuðningi Íslands við Juan Guaidó sem bráðabirgðaforseta Venesúela.
„Mér er ekki kunnugt um að Ísland hafi nokkru sinni hlutast með þessum hætti í málefni annars fullvalda ríkis,“ segir í bréfi sem Pétur sendi utanríkisráðherra í síðustu viku. Stundin hefur undir höndum afrit af bréfinu, en þar er skorað á Guðlaug að segja af sér ráðherraembætti og biðja þing og þjóð afsökunar á framgöngu sinni – framgöngu sem dómarinn fyrrverandi telur að geti varðað refsiábyrgð.
Hvorki samráð við ríkisstjórn né utanríkismálanefnd
Guðlaugur Þór lýsti yfir stuðningi við Juan Guaidó, forseta þjóðþings Venesúela, sem forseta landsins til bráðabirgða þann 4. febrúar síðastliðinn. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, hefur gagnrýnt ráðherrann fyrir að hafa ekki haft samráð við utanríkismálanefnd Alþingis áður en yfirlýsingin var birt. Þá virðist samkvæmt fundargerðum sem málið hafi ekki verið tekið formlega upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir þó Guðlaug hafa upplýst formenn stjórnarflokkanna um yfirlýsinguna áður en hún var send út.
Pétur Guðgeirsson bendir á að samkvæmt 17. gr. stjórnarskrárinnar er skylt að bera upp mikilvæg stjórnarmálefni á ráðherrafundum. „Ekki getur vafi leikið á því að ákvörðun um að Ísland hlutist til um stjórnskipunarmál annars fullvalda ríkis er mikilvægt stjórnarmálefni og því fremur sem sú íhlutun er bersýnilega ólögmæt,“ skrifar Pétur og bendir á að ekki verði séð af því sem skráð er á vef forsætisráðuneytisins um tvo síðustu ráðherrafundina að utanríkisráðherra hafi borið málið upp þar. „Get ég ekki betur séð en að slík vanræksla gæti varðað refsiábyrgð samkvæmt 2. gr. laga um ráðherraábyrgð nr. 4, 1963. Þá gæti sjálf embættisathöfnin hugsanlega varðað refsiábyrgð samkvæmt 10. gr. laganna.“
Hvað ef utanríkisráðherra Venesúela lýsti
Steingrím réttkjörinn forseta Íslands?
Pétur bendir á að fullveldi ríkja og virðing fyrir því er grundvöllur samskipta siðaðra ríkja og að ekkert ríki hefur samkvæmt þjóðarétti heimild til þess að hlutast til um innanríkismálefni annars ríkis. Þetta hafi verið viðurkennt allt frá friðarsamningunum í Westfalen 1648 þegar grundvöllur var lagður að hinu alþjóðlega kerfi fullvalda ríkja og stofnanir á borð við Sameinuðu þjóðirnar væru óhugsandi ef þessu leiðarljósi væri ekki almennt fylgt.
„Hvernig litist yður nú á það, herra utanríkisráðherra, að starfsbróðir yðar í Venesúela fengi veður af því að forseti alþingis, Steingrímur J. Sigurðsson, hefði af einhverjum ástæðum sem hann bæri fyrir sig, útnefnt sjálfan sig forseta Íslands, og að nú lýsti þessi kollega yðar því yfir, fyrir hönd Venesúela, að Steingrímur J. væri réttur forseti Íslands en ekki sá sem til þess hefur verið kjörinn,“ skrifar Pétur.
„Ég leyfi mér að halda því fram
að það athæfi sem þér hafið nú gert
yður beran að sé jafnhneykslanlegt“
„Ég er viss um að þér mynduð, eins og hver fullvita maður, álíta þetta vera hneykslanleg afskipti erlends ríkis af málefnum Íslands. Ég leyfi mér að halda því fram að það athæfi sem þér hafið nú gert yður beran að sé jafnhneykslanlegt.“
Bréfi Péturs lýkur með áskorun til Guðlaugs Þórs: „Að endingu skora ég á yður að þér segið nú þegar af yður ráðherraembættinu sem þér hafið svo stórlega misfarið með og biðjið þing og þjóð afsökunar á þessum afglöpum.“
Hér má lesa bréf Péturs Guðgeirssonar til utanríkisráðherra í heild:
Herra utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Ég vísa til þess að þér hafið, hinn 5. þ.m. látið birta fréttatilkynningu á vefsíðu utanríkisráðuneytisins þar sem fram kemur að þér höfðuð daginn áður lýst því yfir á ensku á netsíðunni Twitter "að Ísland styddi Juan Guaidó sem forseta Venesúela til bráðabirgða. Boðað skyldi til frjálsra og löglegra kosninga og vilji fólksins virtur." Þá segir þar: "Áður en utanríkisráðherra lýsti þessu yfir upplýsti hann utanríkismálanefnd Alþingis."
Í fréttatilkynningunni er þessi stjórnarathöfn yðar réttlætt með atburðum sem orðið hafa í Venesúela og ástandi sem ríkir þar í stjórnarfari og bjargræðismálum. Í fréttatilkynningunni segir jafnframt að maður að nafni Juan Guaidó, sem sagður er vera "lýðræðislega réttkjörinn forseti hins valdalausa þjóðþings" Venesúela, hafi nýverið lýst sig forseta landsins til bráðabirgða.
Nú hlýtur yður að vera kunnugt um það að Venesúela er fullvalda ríki og að landið er aðili að Sameinuðu þjóðunum líkt og Ísland. Þá er yður vafalaust kunnugt um að formlegt stjórnmálasamband er með ríkjunum tveimur, eins og t.d. má lesa í forsetaúrskurði nr. 8, 9. febrúar 2018 um sendiráð, fastanefndir ofl. Þá er ætti að vera óþarft að minna yður á það að fullveldi ríkja og virðing fyrir því er grundvöllur samskipta siðaðra ríkja og loks á það að ekkert ríki hefur samkvæmt þjóðarétti heimild til þess að hlutast til um innanríkismálefni annars ríkis. Hefur þetta verið viðurkennt með öllum siðuðum þjóðum frá friðarsamningunum í Westfalen 1648 þegar grundvöllur var lagður að hinu alþjóðlega kerfi fullvalda ríkja, eins og þér eigið vel að vita. Væru alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar t.d. óhugsandi ef þessu leiðarljósi væri ekki almennt fylgt, sbr. t.d. 2. gr. stofnsáttmála samtakanna frá 24. október 1945. Loks hljótið þér að vita að fullveldi ríkis er algjört og því dregur ekki úr því þótt þar séu innanlandsdeilur eða ríki óstjórn.
Mér er ekki kunnugt um að Ísland hafi nokkru sinni hlutast með þessum hætti í málefni annars fullvalda ríkis og reyndar leyfi ég mér að slá því föstu slík firn hafi aldrei átt sér stað. Hvernig litist yður nú á það, herra utanríkisráðherra, að starfsbróðir yðar í Venesúela fengi veður af því að forseti alþingis, Steingrímur J. Sigurðsson, hefði af einhverjum ástæðum sem hann bæri fyrir sig, útnefnt sjálfan sig forseta Íslands, og að nú lýsti þessi kollega yðar því yfir, fyrir hönd Venesúela, að Steingrímur J. væri réttur forseti Íslands en ekki sá sem til þess hefur verið kjörinn. Ég er viss um að þér mynduð, eins og hver fullvita maður, álíta þetta vera hneykslanleg afskipti erlends ríkis af málefnum Íslands. Ég leyfi mér að halda því fram að það athæfi sem þér hafið nú gert yður beran að sé jafnhneykslanlegt.
Samkvæmt 17. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944 skal bera upp mikilvæg stjórnarmálefni á ráðherrafundi. Ekki getur vafi leikið á því að ákvörðun um að Ísland hlutist til um stjórnskipunarmál annars fullvalda ríkis er mikilvægt stjórnarmálefni og því fremur sem sú íhlutun er bersýnilega ólögmæt. Ekki verður séð af því sem skráð er á vef forsætisráðuneytisins um tvo síðustu ráðherrafundina að þér hafið borið þetta mál upp þar, hvorki á fundi sem haldinn var 1. þ.m. né á fundi 5. þ.m. Get ég ekki betur séð en að slík vanræksla gæti varðað refsiábyrgð samkvæmt 2. gr. laga um ráðherraábyrgð nr. 4, 1963. Þá gæti sjálf embættisathöfnin hugsanlega varðað refsiábyrgð samkvæmt 10. gr. laganna.
Í fréttatilkynningunni segir að þér hafið "upplýst utanríkismálanefnd" (væntanlega um þessa ákvörðun yðar) áður en þér gerðuð hana kunna fyrir heiminum eða a.m.k. öðrum twittlingum. Þetta atriði er vitaskuld þýðingarlaust og dreifir hvorki ábyrgðinni af þessu tiltæki á herðar annarra né leysir það sjálfan yður undan henni. Þó hef ég haft fyrir því að fletta upp í fundargerðum tveggja funda nefndarinnar, 4. og 6. þm. Ekki er að skilja að þetta mál hafi borið á góma á fundi 4. þ.m. en í fundargerð um 6. þ.m., sem var eftir tilkynningu yðar, er þess þó getið undir liðnum "Ástandið í Venesúela" að þér hafið komið á fund nefndarinnar, farið yfir málið og svarað spurningum fundarmanna.
Að endingu skora ég á yður að þér segið nú þegar af yður ráðherraembættinu sem þér hafið svo stórlega misfarið með og biðjið þing og þjóð afsökunar á þessum afglöpum.
Með vinsemd,
Pétur Guðgeirsson
Athugasemdir