Breyta þarf almennum hegningarlögum þannig að intersex fólk sé varið gegn mismunun og hatursorðræðu. Þetta er mat sex þingmanna Vinstri grænna, sem hafa lagt fram frumvarp þess efnis á Alþingi.
Una Hildardóttir, varaþingmaður Vinstri grænna, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Samkvæmt því verður orðunum „kyntjáning“ og „kyneinkenni“ bætt við þá grein laganna sem snýr að viðurlögum við mismunun gagnvart fólki í atvinnurekstri og þjónustustarfsemi og þá grein sem varðar hatursorðræðu.
Ólíkt hugtökum eins og trans og kynsegin, sem snúa að kynvitund fólk, vísar intersex til meðfædds breytileika á líffræðilegum kyneinkennum. Þegar kemur að intersex fólki er ekki ljóst við fæðingu hvort líffræðileg einkenni bendi til karlkyns eða kvenkyn manneskju.
„Verði frumvarpið samþykkt er réttindum intersex einstaklinga veitt aukin vernd og í því felst skýr yfirlýsing um að þeir njóti verndar á við aðra sem þurfa á sérstakri vernd að halda gegn m.a. hatursorðræðu og glæpum,“ segir í frumvarpinu.
Athugasemdir