Dómsmálaráðuneytið ætlar að taka til skoðunar á grundvelli almennrar eftirlitsskyldu sinnar það verklag sýslumanna að senda barnaverndarnefndum tilkynningar um ofbeldi vegna umgengnistálmana. Þetta kemur fram í nýlegum úrskurði ráðuneytisins þar sem dagsektarúrskurður sýslumanns gegn móður var staðfestur.
Eins og Stundin greindi frá í fyrra skilgreina Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og Sýslumaðurinn á Suðurlandi umgengnistálmanir sem ofbeldi gegn börnum og senda gjarnan barnaverndarnefndum tilkynningar um slíkt ofbeldi eftir uppkvaðningu dagsektarúrskurða.
Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í fjölskyldurétti við Háskóla Íslands og einn af höfundum frumvarps sem lá til grundvallar endurskoðun á barnalögum árið 2012, sagði í samtali við Stundina að hún væri ósammála túlkun sýslumanns. Barnaverndarnefndir á Íslandi og embætti ríkissaksóknara byggja ekki á sömu túlkun og sýslumannsembættin í þessum efnum, enda er því hvergi slegið föstu í lögum, lögskýringargögnum eða dómafordæmum að tálmun á umgengni jafngildi ofbeldi.
Athugasemdir