Konurnar sem halda úti Facebook hópnum #metoo Jón Baldvin Hannibalsson hafa birt 23 nafnlausar sögur frá jafnmörgum konum á sérstakri bloggsíðu. Gerast sögurnar á nær 60 ára tímabili og lýsa kynferðislegri áreitni Jóns Baldvins.
„Við viljum gera þær opinberar í anda þeirrar bylgju sem farið hefur yfir heiminn og sameinar konur þegar þær segja: Ég líka – Me too!“ skrifa konurnar á síðunni. „Við viljum að það samfélag sem hefur litið undan þrátt fyrir að kynferðisbrot hans hafi verið gerð opinber geti nú lesið þær reynslusögur sem er okkar sannleikur. Þannig viljum við frelsa okkur frá þeirri þjáningu sem samskipti við hann hafa valdið okkur í áratugi. Við erum frelsinu fegnar.“
Ástæðu þess að sögurnar eru birtar nafnlausar segja konurnar vera að beina sjónum að gerandanum Jóni Baldvinni. „Nöfn okkar skipta ekki máli heldur hann sem gerandi. Umræðan á að snúast um hann, brot hans og afleiðingar þeirra. Það er kominn tími til að Jón Baldvin taki afleiðingum gerða sinna,“ skrifa þær.
Segir fjölmiðla hafa viljað stöðva bók og málþing
Í grein í Fréttablaðinu í dag skrifar Jón Baldvin að sögurnar séu runnar undan rifjum Aldísar dóttur sinnar. Markmið fjölmiðla með umfjöllun um þær hafi verið að koma í veg fyrir útgáfu bókar í tilefni af áttræðisafmæli hans og málþing „um erindisbréf jafnaðarmanna á nýrri öld“.
Jón Baldvin skrifar að hópur öfgafeminista hafi sagt réttarríkinu stríð á hendur. Hann hafi verið fundinn sekur í fjölmiðlum og fordæmdur án réttarhalds. Þær hafi tekið sér ritstjórnarvald og viljað banna bækur eins og bók sína „Tæpitungulaust“, sem til stóð að kæmi út í febrúar.
„Athygli mín hefur verið vakin á því, að enginn í þingflokki Samfylkingar, sem telur sig a.m.k. á tyllidögum vera arftaka jafnaðarstefnu í íslenskum stjórnmálum, þorði að birta nöfn sín á heillaóskaskrá til „hins aldna leiðtoga íslenskra jafnaðarmanna“,“ skrifar Jón Baldvin. „Vildu þau kannski ekki? Eða þorðu þau einfaldlega ekki fyrir sitt litla líf að rísa gegn tyftunarvaldi öfgafeminista, sem hafa hreiðrað um sig í valdastöðum í flokknum?“
Athugasemdir