Þingflokksformenn ríkisstjórnarflokkanna segja að frávísunartillaga Jóns Gunnarssonar og stuðningur þingmanna meirihlutans, utan Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis við hana hafi ekki verið stuðningsyfirlýsing við nefndarformennsku Bergþórs Ólasonar. Óvissa hafi verið um hvort tillagan væri tæk.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem þingflokksformenn Vinstri grænnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa sent frá sér. Í tilkynningunni kemur ekki fram hvort stjórnarflokkarnir séu andsnúnir setu Bergþórs Ólasonar sem formanns, heldur eingöngu að ekki hafi verið um stuðningsyfirlýsingu við hann að ræða. Þar kemur fram að umrædd frávísunartillaga hafi einungis snúið að því að setja hafi átt Bergþór af en ekki hafi legið fyrir tillaga um nýjan formann. Óvissa hafi verið um hvort tillagan væri tæk.
Í fyrri frétt Stundarinnar kemur hins vegar fram að þingkonurnar sem lögðu fram tillöguna um að setja Bergþór af óskuðu eftir fundarhléi svo unnt væri að kanna hvort tillagan væri tæk. Var þá ætlunin að gera breytingar á tillögunni ef niðurstaðan væri sú að svo væri ekki. Á þetta var ekki fallist.
Í yfirlýsingu þingflokksformannanna kemur fram að formennska í umhverfis- og samgöngunefnd sé hluti af samkomulagi milli meirihlutans á Alþingi og minnihlutans. „Samkvæmt samkomulagi þingflokksformanna í kjölfar þingkosninga 2017 féll formennska í þremur nefndum í skaut stjórnarandstöðuflokka og formennska í fimm nefndum í skaut stjórnarflokkanna. Það er á forræði þingflokksformanna ef breyta á samkomulaginu og hafa þannig áhrif á nefndarformennsku,“ segir í yfirlýsingunni.
Í 14. grein þingskapa Alþingis er rakið hvernig kosið skuli í fastanefndir Alþingis. Þar er tiltekið að á þingsetningarfundi skuli formenn þingflokka leggja fram við kosningu fastanefndar tillögu um skipun nefndanna, byggða á hlutfallslegum þingstyrk flokka og jafnfram að tilgreina skuli hvernig embættum sé skipt milli þingflokka.
Hins vegar segir einnig í 4. málsgrein 14. greinar: „Nefnd getur hvenær sem er kosið að nýju formann eða varaformenn ef fyrir liggur beiðni meiri hluta nefndarmanna og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram.“ Þannig er augljóst að það þarf ekki eingöngu að vera á forræði þingflokksformanna að ákveða hvernig nefndarformennsku er háttað.
Athugasemdir