María Heimisdóttir, nýr forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, telur óeðlilegt að skattfé renni til eigenda heilbrigðisfyrirtækja í formi arðgreiðslna. Þetta kemur fram í viðtali við hana sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Í viðtalinu er vikið að arðgreiðslubanninu sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra setti á einkareknar heilsugæslustöðvar.
Aðspurð hvort rétt sé að setja slíkar reglur víðar segir María að bannið sé ekkert einsdæmi í Evrópu og nú hafi aðildarríki Evrópusambandsins til skoðunar hvort eðlilegt sé að fyrirtæki sem greiði arð fái að taka þátt í útboðum á heilbrigðisþjónustu.
Haft er eftir Maríu: „Nú greiða skattborgarar alla heilbrigðisþjónustu á landinu og engir aðrir peningar eru í umferð í kerfinu. Er réttlætanlegt að nota þetta skattfé til að greiða eigendum heilbrigðisfyrirtækja stórar fjárhæðir í arð? Kannski væri heppilegra að þetta fé færi í að auka hagkvæmni heilbrigðisþjónustunnar og gæðin.“
Stundin hefur fjallað ítarlega um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu undanfarin ár. Á meðal arðsömustu fyrirtækja Íslands eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í heilbrigðisþjónustu og sækja tekjur sínar að verulegu leyti til íslenska ríkisins með samningum við Sjúkratryggingar Íslands.
Hér má t.d. nefna bæklunarlæknafyrirtækið Stoðkerfi í Orkuhúsinu til dæmis sem hefur greitt út hátt í 400 milljóna arð til hluthafa sinna undanfarin ár og Læknavaktina í Kópavogi hefur greitt hluthöfum 200 milljóna króna arð frá hruninu 2008. Arðgreiðslubannið á heilsugæslustöðvarnar tekur ekki til þessara fyrirtækja né til röntgenmyndafyrirtækisins Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. í Dómus Medica sem greiddi 447 milljóna króna arð til hluthafa árin 2011 til 2016.
Athugasemdir