Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata og formaður laga-og mannréttindanefndar Evrópuráðs, hvetur Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, til að kynna sér betur þau lög sem gilda um nauðungarvistanir á Íslandi.
Sighvatur birti grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann gagnrýnir pistil Þórhildar Sunnu um mál Aldísar Schram og Jóns Baldvins Hannibalssonar og réttarstöðu nauðungarvistaðra sem birtist á vef Stundarinnar fyrir helgi. Telur Sighvatur að Þórhildur dragi upp villandi mynd af lögum og lagaframkvæmd á Íslandi.
„Sighvatur lýsir upplifun sinni af nauðungarvistunum í fjölskyldum vinafólks síns í greininni og ég dreg hana svo sem ekkert í efa,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við Stundina. „Til að gagnrýni geti talist málefnaleg verður hún þó að byggja á fleiru en reynslusögum eða tilfinningum eins manns. Sighvatur segist hafa lesið yfir lögin og kemur með ýmsar staðhæfingar út frá því sem ég hyggst svara sérstaklega á næstunni. En svo það sé sagt að þá byggi ég mína gagnrýni á tilmælum Evrópunefndar um varnir gegn pyntingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð eða refsingu til íslenskra stjórnvalda í gegnum árin.“
Þórhildur Sunna bendir á að nefndin sé skipuð sérfræðingum sem hafa það hlutverk að tryggja réttindi frelsissviptra í aðildarríkjum Evrópuráðsins. „Mín gagnrýni byggir á ítarlegri rannsóknarvinnu sem ég vann fyrir Geðhjálp við gerð vefsíðunnar rettindagatt.is sem upplýsir geðfatlaða og fólk með geðraskanir um réttarstöðu sína hér á Íslandi. Sighvatur gefur í skyn að ég sé viljandi að gefa ranga mynd af lögunum og skammar mig fyrir það í greininni sinni. Ég læt það vera að skamma hann á móti fyrir sínar rangfærslur en ég hvet hann til þess að kynna sér málin betur.“
Athugasemdir