Tekjuhæstu 10 prósent hjóna á miðjum aldri (50 til 65 ára) hafa aukið ráðstöfunartekjur sínar að meðaltali rúmlega tvöfalt meira en hjón í öllum öðrum tekjuhópum á tímabilinu 2012 til 2017. Meðalráðstöfunartekjur hjóna á þessum aldri, með og án barna, jukust um 5 til 6 prósent á ári yfir tímabilið en hjá tekjuhæsta hópnum var aukningin í kringum 10 prósent.
Þetta má sjá á Tekjusögunni.is, vef sem ríkisstjórn Íslands setti í loftið um miðjan janúar þar sem hægt er að bera saman lífskjaraþróun hópa með einföldum hætti.
Á vefnum er ekki boðið upp á samanburð á skattbyrði en með því að slá uppgefnum tölum inn í Excel má greina örlitla lækkun meðalskattbyrði (tveggja prómilla lækkun) milli áranna 2016 og 2017 sem dreifðist nokkuð jafnt á tekjuhópa. Ef rýnt er í skattbyrði hjóna og sambúðarfólks á miðjum aldri sem ekki hefur barn á sínu framfæri kemur í ljós að skattbyrði tekjuhæstu tíundarinnar minnkaði úr 29,8 prósentum í 27,6 prósent milli áranna 2016 og 2017 meðan meðalskattbyrði allra tekjutíunda sama hóps dróst aðeins saman um 5 prómill.
Sterkur grundvöllur undir kjaraumræðuna
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lýst Tekjusögunni.is sem mikilvægu innleggi í samráð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vegna yfirstandandi kjaraviðræðna.
„Það er þörf á áreiðanlegum og óumdeildum gagnagrunni með launatölfræði sem allir hafa aðgang að til að hægt sé að leggja mat á launaþróun auk áhrifa skatta og bóta með óumdeildum og áreiðanlegum hætti. Ég tel að með Tekjusögunni séum við komin með styrkan grundvöll undir umræður um kjaramál,“ segir Katrín í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.
„Tekjusagan gerir okkur kleift að sjá hvernig lífskjör mismunandi hópa hafa þróast“
„Það er lykilatriði fyrir stjórnvöld að hafa aðgang að áreiðanlegum upplýsingum þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku. Tekjusagan gerir okkur kleift að sjá hvernig lífskjör mismunandi hópa hafa þróast, hvaða hópum hefur vegnað vel og hvaða hópar þurfa sérstaka athygli.“
Meðaltöl tekjutíunda borin saman
Á Tekjusögunni.is er stuðst við meðaltöl þar sem völdum hópum er skipt niður í 10 jafna hópa eftir atvinnutekjum. Hafa verður í huga að fjármagnstekjum er afar misjafnt skipt á Íslandi sem annars staðar. Árið 2016 rann tæpur helmingur allra fjármagnstekna til tekjuhæsta 1 prósentsins á Íslandi og eins og Stundin greindi frá í síðasta blaði var tekjuhæsta 0,1 prósent Íslendinga með 60 milljarða í heildartekjur árið 2016, þar af 86 prósent fjármagnstekjur. Þessi ójafna dreifing fjármagnstekna gerir að verkum að skipting í tekjutíundir gefur afar ófullkomna mynd af lífskjörum tekjuhæsta fólksins á Íslandi.
Sem dæmi má nefna að heildarmánaðartekjur einstæðs manns sem tilheyrir tekjuhæstu tíundinni voru samkvæmt Tekjusögunni.is tæpar 1,3 milljónir árið 2016, þar af 220 þúsund króna fjármagnstekjur. Þetta er meðaltalið, en samkvæmt staðtölum ríkisskattstjóra, þar sem skattgreiðendum er raðað eftir 100 tekjubilum, þurfti einstaklingur ekki að þéna nema 8 milljónir króna árið 2016 (666 þúsund krónur á mánuði) til að tilheyra hæstu tekjutíund einstæðinga. Hjón þurftu að þéna 22,2 milljóna árstekjur (1.851 milljón á mánuði) til að tilheyra hæstu tekjutíund hjóna. Þess skal þó getið að í staðtölum ríkisskattstjóra eru allir skattgreiðendur meðtaldir, ekki aðeins þeir sem eru á aldrinum 25 til 64 ára eins og á Tekjusögunni, og hefur það áhrif til lækkunar. Engu að síður gefur þetta vísbendingar um að það þarf engar ofurtekjur til að tilheyra tekjuhæsta hópnum á vefnum.
Ef rýnt er í upplýsingar sem Stundin birt í síðasta blaði um allra tekjuhæstu Íslendingana má sjá að einstaklingur sem tilheyrði tekjuhæsta 0,1 prósentinu fékk að meðaltali 184,2 milljónir árið 2016, eða sem samsvarar 15,3 milljónum á mánuði. Tveir tekjuhæstu Íslendingarnir fengu meira en 3 milljarða (3000 milljónir eða 250 milljónir á mánuði) og auk þeirra voru fjórir með meira en milljarð í árstekjur. Þessir ofurríku einstaklingar tilheyra sama tekjuhópnum, samkvæmt Tekjusögunni.is, og millitekjufólk sem er með rétt yfir milljón á mánuði.
Tekjuhæstu tíundirnar eru þannig afar ósamstæður hópur. Einstæður smiður eða háskólakennari getur hæglega fallið í sama tekjuhóp og fjársterkustu útgerðareigendur landsins. Lögreglukona og arkítekt með tvö börn eru vís til að lenda í sama hópnum og fjölskyldur sem þéna hundruð milljarða í fjármagnstekjur á ári hverju. Tekjusagan.is hefur því takmarkað notagildi þegar kemur að samanburði á kjörum hópanna sem hafa það best og verst á Íslandi.
Vildi sýna aðra mynd
Með því að bera einungis saman aukningu á ráðstöfunartekjum tekjutíunda er dregin upp sú mynd að lífskjör allra hópa hafi batnað álíka mikið undanfarin ár. Að þessu leyti styður framsetningin og aðferðafræðin við málflutning sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur haldið á lofti, bæði sem
Athugasemdir