„Varðandi stjórnarskrána þá voru 37 prósent þjóðarinnar sem höfðu kosningarétt sem samþykktu drög sem voru lögð til grundvallar. Þetta var vinnuplagg. Þetta var ekki fullbúin stjórnarskrá.“
Þannig komst Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, að orði þegar stjórnarskrárbreytingar bar á góma í umræðum um stöðu stjórnmála á Alþingi í dag.
64,2 prósent þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um breytingar á stjórnarskrá Íslands árið 2012 greiddu atkvæði með því að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.
Ari Trausti lagði hins vegar áherslu á að einungis 37 prósent atkvæðabærra manna hefði lýst yfir stuðningi við tillögur stjórnlagaráðs og tók þannig með í reikningsdæmið þá sem ekki mættu á kjörstað.
„Ég held að þetta sé algengur misskilningur, það hefur gengið svo langt að ákveðinn aðili við HÍ hefur kallað þetta valdarán,“ sagði Ari Trausti og vísaði þar til málflutnings Þorvaldar Gylfasonar hagfræðiprófessors sem sat í stjórnlagaráði á sínum tíma.
„Við skulum hafa það á hreinu. Svo ég spyr, var þetta vinnuplagg eða var þetta fullbúin stjórnarskrá sem lögð var til grundvallar í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 37 prósent atkvæðabærra manna samþykktu?“
Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, gaf lítið fyrir áherslur Ara Trausta og kallaði eftir samstöðu um stjórnarskrárbreytingar á grundvelli tilllagna stjórnlagaráðs. Hún og þingflokkur Pírata lögðu fram frumvarp á Alþingi í dag þar sem lagt er til að tillaga stjórnlagaráðs verði samþykkt nær óbreytt sem lög.
Ari Trausti ítrekaði að árið 2011 hefðu verið greidd atkvæði um vinnuplagg en ekki fullbúna stjórnarskrá.
„Þð er mjög langt teygt að túlka það svo að þessi 37 prósent hafi verið að samþykkja stjórnarskrártillöguna. Ég gerði það t.d. ekki með mínu atkvæði, ég leit svo á að þarna væri komið gott vinnuplagg til að byggja á í þeirri vinnu og ég ætla að fullyrða að það á við um marga aðra,“ sagði hann.
„Hvar myndi það gerast ef þetta væri raunveruleg þjóðaratkvæðagreiðsla um raunverulega fullbúna stjórnarskrá?“
„Auðvitað er það ekki góð latína þegar verið að samþykkja stjórnarskrá að 35 prósent geri það, 75 þúsund manns af yfir 200 þúsund. Hvar myndi það gerast ef þetta væri raunveruleg þjóðaratkvæðagreiðsla um raunverulega fullbúna stjórnarskrá? Þetta var ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og það var verið að greiða atkvæði um vinnuplagg.
Þannig þetta er ekki valdarán og þótt það hafi liðið tvöþúsund og eitthvað dagar síðan það var gert þá er það bara vegna óeiningar um plaggið sjálft, ekki vegna þess að stjórvöld hafi rænt völdum á Íslandi eins og þessi ágæti prófessor hefur sagt.“
Athugasemdir